*

Sport & peningar 13. apríl 2016

Byggir dýrasta völl í heimi

Bandaríska fótboltaliðið Rams er flutt aftur til Los Angeles eftir 20 ára dvöl í borginni St. Louis í Missouri.

Trausti Hafliðason

Einu sinni voru tvö NFL-lið í Los Angeles, LA Rams og LA Raiders, en frá árinu 1995 hefur borgin ekki átt lið sem keppir í ameríska fótboltanum. Raiders flutti til Oakland árið 1994 eða ári áður en Rams flutti til St. Louis.

Amerískur fótbolti er vinsælasta íþrótt Bandaríkjanna og þess vegna hefur það þótt merkilegt að borg, sem stærir sig af því að vera miðstöð afþreyingariðnaðarins, hafi ekki átt lið í þessari íþrótt í ríflega tvo áratugi. Þess má geta að í Los Angeles eru tvö NBAkörfuboltalið, LA Lakers og LA Clippers og tvö NHL-íshokkílið, LA Kings og Anaheim Ducks. Lið LA Rams er í eigu Stans Kroenke, sem sumir kannast eflaust við sem stærsta hluthafa enska knattspyrnuliðsins Arsenal. Kroenke er milljarðamæringur og mikill íþrótta- áhugamaður því auk þess að eiga LA Rams og stærsta hlutinn í Arsenal, á hann NBA-körfuboltaliðið Denver Nuggets, NHL-íshokkíliðið Colorado Avalanche og MLS-fótboltaliðið Colorado Rapids. Kroenke er giftur Ann Walton Kroenke, dóttur James „Bud“ Walton’s heitins, sem stofnaði verslunarkeðjuna Wal-Mart.

MetLife-völlurinn sá dýrasti í dag

Kroenke hefur nú ákveðið að byggja dýrasta íþróttaleikvang Bandaríkjanna í Inglewood, suðvestur af Los Angeles. CNN fullyrðir reyndar að völlurinn verði sá dýrasti í heimi. Áætlaður kostnaður er 2,6 milljarðar dollara eða 330 milljarðar króna. Dýrasti völlur sem byggður hefur verið í Bandaríkjunum er MetLife-völlurinn í New Jersey, þar sem NFL-liðin New York Giants og New York Jets spila. Völlurinn var tekinn í notkun árið 2010 og tekur 82.600 manns í sæti. Á verðlagi þessa árs kostaði hann 1,74 milljarða dollara eða 220 milljarða króna. Næstdýrasti völlurinn er AT&Tvöllurinn í Arlington í Texas, þar sem Dallas Cowboys leika. Hann rúmar 80.000 manns í sæti og kostaði 1,43 milljarða dollara á verðlagi þessa árs eða um 180 milljarða króna. Emirates-völlurinn í London, sem var byggður árið 2005 og er heimavöllur Arsenal, kostaði tæpar 500 milljónir punda eða 90 milljarða króna. Til gamans má geta þess að bygging tónlistarhússins Hörpu kostaði tæpa 18 milljarða króna.

Nánar er fjallað um dýrasta völl í heimi í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins.

Stikkorð: NFL  • Stan Kroenke  • LA Rams