*

Hitt og þetta 21. ágúst 2018

Ný verslunarmiðstöð rís í Dubai

Risavaxin hátækniverslunarmiðstöð sem rísa mun í Dubai var afhjúpuð nýlega.

Yfirvöld í Dubai afhjúpuðu nýlega áform um að byggja risavaxna verslunarmiðstöð fyrir 2 milljarða dollara, um 215 milljarða króna. Miðstöðin kemur til með að innihalda um 750 þúsund fermetra af verslunarrými, sem verður það mesta í einni verslunarmiðstöð í heimi, en auk þess verður þar meðal annars vatnsgarður og íþróttaleikvangur.

Það byltingarkenndasta við Dubai-torg (Dubai Square) verða hinsvegar hátækniinnviðirnir. Verslanir verða tengdar við snjallsímaviðmót sem meðal annars mun gera viðskiptavinum kleift að greiða fyrir vörur með snjallsímum sínum.

Þótt talsmaður verkefnisins segi að það verði eitthvað fyrir alla, viðurkennir hann að helsti markhópurinn sé hin unga og tæknivædda kynslóð. Þetta muni koma sér vel fyrir verslanir sem beini sjónum sínum sérstaklega að miðausturlenskum viðskiptavinum.

Fólksfjölgun þar sé ör, og meðalaldur lágur; um helmingur miðausturlandabúa sé undir 25 ára aldri. Þá segir hann marga þessara ungu viðskiptavina vera sterkefnaða sérfræðinga, og það séu því mikil og vaxandi tækifæri í að þjónusta þá næstu áratugina.

Stikkorð: Dubai  • verslunarmiðstöð