*

Sport & peningar 30. apríl 2014

Býst við að allir vilji losna við Sterling

Eigandi Sacramento Kings telur að samþykkt verði samhljóða að þvinga eiganda LA Clippers til að selja liðið.

Eigendur þeirra 29 körfuboltaliða sem mynda NBA deildina munu greiða atkvæði um það hvort Donald Sterling, eigandi LA Clippers, verði þvingaður til að selja liðið. Ástæðan er ummæli sem höfð hafa verið eftir honum um þeldökka menn.

Eigandi Sacramento Kings segist telja að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verði samhljóma. „Þeir eigendur sem ég þekki eru allir litblindir og þeir telja að þessi hegðun hafi verið forkastanleg,“ sagði Vivek Ranadive, aðaleigandi Sacramento Kings, í samtali við Good Morning America í dag.

Í gær ákvað Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA deildarinnar, að sekta Sterling um 2,5 milljónir dala og banna honum að mæta á NBA leiki um alla ævi. 

Hljóðupptöku af ummælum Donalds Sterling var lekið til fjölmiðla. Ummælin þykja hatursfull en hann kvartar undan því að ung unnusta sín hafi birt myndir af sér og körfuboltagoðsögninni Magic Johnson á Instagram.