*

Bílar 9. febrúar 2020

C-HR fær aukið afl

Á dögunum kynnti Toyota C-HR með breyttum búnaði og útliti, svokallað „facelift“.

Róbert Róbertsson

Toyota C-HR kom á markað árið 2016 og vakti mikla athygli enda byltingarkennd hönnun á bílnum. Á dögunum kynnti Toyota C-HR með breyttum búnaði og útliti, svokallað „facelift". Þar ber hæst ný og aflmeiri 2 lítra Hybrid vél sem gerir bílinn sportlegri í akstri.

C-HR er framúrstefnulegur útlits og með honum hefur Toyota búið til lífsstílsbíl.

C-HR er skilgreindur sem „crossover" og stendur svolítið mitt á milli þess að vera fólksbíll og sportjeppi. Húddið flæðir yfir brettalínuna sem gefur bílnum kröftugt útlit sem fer vel með áberandi framljósunum og demantslaga grillinu. Laglega mótaðar hurðirnar mæta svörtum hurðarpóstum sem gefa toppnum skemmtilega fljótandi útlit. Bogalaga afturljósin og LED-stefnuljósin setja flottan svip á bílinn ásamt vel hönnuðum afturstuðara. Handföngin á afturhurðunum eru efst í horninu og svolítið falin þannig að við fyrstu sýn virðist bíllinn vera þriggja dyra.

Nýstárlegur að innan

Innanrýmið er líka nýstárlegt og nokkuð ólíkt því sem Toyota hefur boðið upp á bílum sínum. Þar er m.a. að finna 8 tommu upplýsingaskjá sem býður upp á Toyota Touch Go afþreyingarkefið. Sætin eru þægileg og það fer vel um ökumann og farþega. Plássið er prýðilegt en það þrengir að afturí ef þrír fullorðnir sitja þar. Plássið í farangursrýminu er þokkalegt.

Aðalbreytingin á bílnum er hin nýja 2 lítra Hybrid vél sem eins og áður segir gerir bílinn sportlegri í aksturseiginleikum. Hún býður upp á mun meira afl en áður og skilar 184 hestöflum eða 135 kW. Minni 1,8 lítra Hybrid vélin skilar 122 hestöflum þannig að það er talsverður munur. Hámarkstogið í nýju vélinni er 190 Nm. Bíllinn er 8,2 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið með þessari nýju vél í stað 11 sekúnda með minni vélinni. Hámarkshraðinn er 180 km/klst. sem er aðeins meira en áður. Eyðslan er frá 4,3 lítrum á hunrdaðið og CO2 losunin frá 98 g/km.

Bíllinn er framhjóladrifinn í þessari útfærslu en hægt er að fá hann fjórhjóladrifinn með 1,2 lítra túrbó bensínvél. C-HR er aðeins hærri en venjulegur fólksbíll þegar sest er inn í hann og þar minnir hann meira á nettan jeppling. Að öðru leyti er hann fólksbílalegri í mörgu t.d. í aksturseiginleikum sem eru talsvert góðir. Stýringin er góð og fjöðrunin sömuleiðis. Með þessari nýju 2 lítra vél kostar C-HR frá 5.540.000 kr. Í dýrustu útfærslunni kostar bíllinn 5.990.000 kr.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Toyota  • C-HR