*

Bílar 13. október 2012

Camaro: Villidýr á veginum

Camaro er ekki sá eyðslugrennsti né umhverfismildasti en gríðarlega skemmtilegur akstursbíll og á þokkalegu verði.

Róbert Róbertsson

Hann beið eftir mér við flugvöllinn í Bern í Sviss. Ég var búinn að bíða spenntur eftir að sjá gripinn og fá að reynsluaka honum. Þarna stóð hann í öllu sínu veldi, Chevrolet Camaro, fagurgulur alveg eins og Bumblebee, ein aðalstjarnan í Transformers myndunum. Og hann olli ekki vonbrigðum. Þvert á móti. Það var magnað að heyra dýrslegt hljóðið frá vélinni þegar ég startaði honum og steig á bensíngjöfina. Varúð – það var villidýr á veginum.

Camaro er með 6,2 lítra 8 strokka bensínvél sem í reynsluakstursbílnum var tengd við 6 gíra sjálfskiptingu. Vélin skilar alls 432 hestöflum og bíllinn er ekki nema 4,6 sekúndur í hundraðið.

Togið er gríðarlegt eða 565 Nm. Þetta er sannkallað leiktæki. Ég varð að fara þokkalega varlega á þessu tryllitæki um ægifagrar sveitir Sviss. Ég var varaður við því að svissneska lögreglan væri hörð í horn að taka og hraðasektirnar himinháar í takt við velmegun landsmanna.

Ég notaði samt hvert tækifæri til að reyna tryllitækið og hafði gaman af. En þótt það sé gaman að aka svona bíl hratt þá er það alls ekki ekkert nauðsynlegt. Maður nýtur akstursins vel á löglegum hraða. En bíllinn er ekki sá sparneytnasti eða umhverfismildasti. Meðaleyðslan er rúmir 13 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri en ég fór aðeins yfir þá tölu í akstrinum í Sviss.

Nánar er fjallað um reynsluakstur Róberts Róbertssonar í Bílablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: Chevrolet Camaro