*

Tölvur & tækni 28. september 2013

Candy Crush á hlutabréfamarkað

Tölvuleikjafyrirtækið King.com hefur stigið fyrsta skrefið í átt að skráningu.

Breski tölvuleikjaframleiðandinn King.com, sem framleiðir m.a. hinn gríðarvinsæla leik Candy Crush Saga, hefur skilað inn nauðsynlegum gögnum til bandaríska fjármálaeftirlitsins SEC til að geta skráð fyrirtækið á markað í Bandaríkjunum.

Í frétt Telegraph segir að ef af verður yrði þetta ein stærsta skráning bresks tæknifyrirtækis á hlutabréfamarkað í mörg ár.

Fjárhagslegar upplýsingar um King eru takmarkaðar, en um síðustu áramót nam veltan um 300 milljónum punda, andvirði um 60 milljarða króna, og hefur aukist töluvert frá þeim tíma. Notendur leikja King eru um tvöfalt fleiri en hjá keppinautnum Zynga, sem skráð var á markað í desember 2011.

Frá skráningu hefur gengi bréfa Zynga hins vegar lækkað umtalsvert og verða forsvarsmenn King að sannfæra fjárfesta um að hið sama muni ekki gerast í þetta sinn.