*

Tölvur & tækni 5. júní 2012

CCP kynnir Dust 514 á risastórri leikjaráðstefnu

Margir af lykilstarfsmönnum CCP eru staddir á E3-leikjaráðstefnunni í Los Angeles. Nýtt myndskeið úr Dust 514 verður þar sýnt.

Forsvarsmenn CCP flagga öllu til þegar tölvuleikurinn Dust 514 verður kynntur á E3-leikjaráðstefnunni í Los Angeles í vikunni. Þetta er einhver stærsta leikjaráðstefna í heimi. CCP verður með sérhannað herbergi á ráðstefnunni þar sem blaðamönnum og starfsfólki í leikjaiðnaði fær að spila og skoða leikinn ásamt viðbót við EVE Online sem kallast Inferno. Þar verður m.a. sýnt nýtt kynningarmyndband um Dust 514 í samstarfi við Sony. 

Fram kemur í tilkynningu frá CCP að fjölmargir starfsmenn fyrirtækisins, þar á meðal framkvæmdastjórinn Hilmar V. Pétursson, séu staddir ytra. 

Dust 514 hefur verið í þróun innan dyra CCP síðastliðin fjögur ár og var hann heimsfrumsýndur á Fanfest-hátíð CCP í Hörpunni í mars. Fram kemur í tilkynningunni frá CCP að viðbrögð fjölmiðla við leiknum, t.a.m. frá tímaritum og vefsíðum í leikageiranum, hafi verið sterk og jákvæð, og sé leiksins beðið með mikilli eftirvæntingu. Þá hafi ekki síst vakið athygli að nýstárlegt viðskiptamódel við útgáfu leiksins og það hvernig hann sameinar PC-tölvur og PlayStation-leikjatölvur.

Hér má sjá myndband úr Dust 514

 

Stikkorð: CCP  • Dust 514