*

Tíska og hönnun 23. júlí 2019

Celsius í verslanir Cintamani

Cintamani framleiðir ódýrari úlpur, vesti og töskur undir nýju vörumerki. Komið í verslanir fyrir verslunarmannahelgi.

Nýtt útivistarmerki, Celsius, er komið í verslanir Cintamani. Celsius er dótturmerki Cintamani og er vörulínan ódýrari útgáfa af síðarnefnda merkinu, og eru vörur þess framleiddar í Ítalíu og Kína úr ódýrari efnum og í meira magni en vörur Cintamani.

Í nýju línunni má finna margar tegundir af úlpum í öllum litum, vestum og sjö tegundir af töskum sem eru vatns- og vindheldar. Töskurnar eru allar svartar en Fanny Bag er hægt að fá í svörtu og sjö öðrum litum.

„Celsius er búið að vera í þróun hjá okkur í nokkurn tíma og er frábært að fá það inn í verslanir áður en stærsta ferðahelgi sumarsins gengur í garð, það er verslunarmannahelgin,“ segir Dagný Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Cintamani.

„Vörurnar eru vandaðar og töff og geri ég til dæmis ráð fyrir að töskurnar megi finna á baki margra Þjóðhátíðargesta sem sælir syngja hástöfum í brekkunni.“ Cintamani verslanirnar eru fimm talsins, ein á Akureyri og fjórar á höfuðborgarsvæðinu, en eins verður hægt að kaupa Celsius vörurnar á heimasíðu Cintamani.