*

Bílar 19. febrúar 2013

Chevrolet SS: Nýr kraftmikill fjölskyldubíll

Sterkleg, nútímaleg og um leið fínleg form einkenna yfirbyggingu hins 415 hestafla Chevrolet SS.

Róbert Róbertsson

Nýr kraftmikill fjölskyldubíll bætist í athyglisverðan flota sportbíla frá Chevrolet síðar á þessu ári þegar Chevrolet SS verður kynntur til sögunnar. Hann verður fyrsti afturhjóladrifni fólksbíllinn með Chevrolet merkinu í 17 ár og það sem meira er þá verður hann með nákvæmlega jafnri þyngdardreifingu á öxla og 6,2 lítra, 415 hestafla V8-vél.

Sterkleg, nútímaleg og um leið fínleg form einkenna yfirbyggingu bílsins og hlutföll hennar taka mið af kraftalegum afturhluta þessa afturhjóladrifna bíls. Chevrolet SS er með 415 hestafla V8-vél en henni fylgir sex þrepa sjálfskipting með TAPshift® handskiptivali og StabiliTrak® rafeindastýrðri stöðugleikastýringu. Þetta ásamt spólvörn á afturhjólin skapar hraðskreiðan og sportlegan fólksbíl sem nær 100 km hraða úr kyrrstöðu á rétt rúmum 5 sekúndum. Svo kemur hann með fjögurra stimpla keppnisbremsum frá Brembo. Ólíkt öllum keppinautum verður framleiðslubíll Chevrolet SS með sömu V8 vélinni og NASCAR keppnisbíllinn.

Chevrolet SS er auk þess hlaðinn tæknibúnaði sem tryggir ökumanni gott samband við umheiminn og stuðlar að auknu öryggi í akstri. SS kemur með Chevrolet MyLink upplýsinga- og afþreyingarkerfinu með leiðsögukerfi. Því fylgir 8 tommu háskerpulitaskjár með snertiaðgerðum sem einnig er notaður til að stjórna 9 hátalara Bose® hljómkerfinu. Þá er bíllinn með sjálfvirkri bílastæðalögn sem sér um það að finna nothæf bílastæði og leggja bílnum án þess að ökumaður þurfi að hafa mikil afskipti af því.

Stikkorð: Chevrolet  • Chevrolet SS