*

Bílar 20. ágúst 2013

GLA er nýr lúxus sportjeppi frá Mercedes-Benz

Nýr sportjeppi frá Mercedes-Benz verður aðeins 6,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Róbert Róbertsson

Mercedes-Benz mun kynna hinn nýja og netta lúxus sportjeppa GLA á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði. Um er að ræða framleiðsluútfærslu á GLA en hingað til hann aðeins verið á hugmyndastigi. GLA er ætlað að keppa við lúxus sportjeppana frá Audi og BMW sem og Range Rover Evoque.

GLA er með flottar línur og mikið er lagt í innanrýmið eins og Mercedes-Benz er von og vísa. Innanrýmið mun svipa mjög til A-Class og hins nýja CLA. Fyrsti framleiðslubíll GLA verður GLA 250 4Matic með tveggja lítra vél sem skilar 208 hestöflum. Sportjeppinn er með 7G-DCT gírkassa og 4MATIC fjórhjóladrifi. Hann verður aðeins 6,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Stefnt er að því að GLA komi einnig með framhjóladrifi og verður fyrir vikið ódýari en sú útgáfa en líklega ekki væntanleg á markað fyrr en 2015. Búast má við AMG ofurútfærslu á GLA þegar fram líða stundir.