*

Matur og vín 19. maí 2013

The Coocoo´s Nest opnar í verbúðunum í Grandagarði

Bráðum geta þeir sem elska ekta ítalska stemmningu rölt niður í Grandagarð og fengið sér bita og drykk.

Lára Björg Björnsdóttir

„Við ætlum að leggja áherslu á flotta hádegisverði með stórum og djúsí samlokum, flott salöt og heimabakað brauð,“ segir Íris Ann Sigurðardóttir ljósmyndari. Íris og maðurinn hennar, bandaríkjamaðurinn Lucas Keller kokkur, opna nýjan veitingastað í gömlu verbúðunum í Grandagarði í júlí.

Íris og Lucas kynntust í Flórens á Ítalíu: „Ég var að læra ljósmyndun og hann var að læra ítalska matargerð. Við fluttum síðan til Mílanó og höfum verið á flakki á milli Íslands og Ítalíu og Kaliforníu síðustu árin. Við erum búin að vera heima núna í ár og höfum lengi stefnt á að opna veitingastað.“

Íris segir innblásturinn koma aðallega frá Ítalíu og San Francisco: „Um helgar ætlum við að bjóða upp á svokallað „San Francisco Style Brunch“ og alla virka daga á milli fimm og sjö verðum við með aperitivo, sem er happy hour Ítala, þar sem smáréttir fylgja drykkjum.“

Írisi líst vel á staðsetninguna og segir mikið líf vera á svæðinu á daginn og hlakkar til að bjóða nálægum vinnustöðum upp á gómsæta rétti og drykki: „Það verður alveg sérstök og hugguleg ítölsk stemming hjá okkur. Síðan stendur til að opna ítalska ísbúð hérna við hliðina á okkur.“

Stikkorð: veitingastaður