
Ný kynslóð af Chevrolet Camaro, COPO Camaro, var kynnt til sögunnar á SEMA-bílasýningunni sem hófst í Las Vegas í Bandaríkjunum í gær. Margir magnaðir bílar eru sýndir í sérstökum útgáfum á sýningu þessari sem nýtur mikillar hylli vestanhafs.
Chevrolet COPO Camaro er byggður á fimmtu kynslóð þessa flotta sportbíls. Um er að ræða nokkurs konar millistig á bílnum en ný kynslóð Chevrolet Camaro mun koma á markað seinni hluta næsta árs. Frumsýningarbíllinn er með öflugt vopnabúr undir húddinu og búinn 5,7 lítra LSX V8-vél með 2,9 lítra Whipple forþjöppu. Hægt er að velja úr nokkrum vélarstærðum á COPO Camaro, bæði með eða án forþjöppu.
Aðeins 69 handsmíðuð eintök verða gerð af COPO Camaro í verksmiðju Chevrolet í Kanada.