*

Sport & peningar 15. desember 2012

Dæmdir úr leik

Refsingu fjögurra leikmanna New Orleans Saints hefur verið aflétt í verðlaunafjárhneykslismálinu svokallaða.

Bjarni Ólafsson

Mikla athygli vakti í Bandaríkjunum og meðal íslenskra áhugamanna um bandarískan fótbolta þegar fjórir leikmenn fótboltaliðsins New Orleans Saints voru, ásamt fjórum þjálfurum félagsins, dæmdir í leikbann fyrir að hafa verið með skipulagt kerfi sem verðlaunaði varnarmenn fyrir að brjóta harkalega á leikmönnum í öðrum liðum.

Kerfið á að hafa verið sett upp árið 2009, en það ár vann Saints-liðið Superbowl úrslitakeppnina. Varnarmennirnir í liðinu settu eigið fé í pott og var svo greitt úr pottinum eftir því hvernig menn stóðu sig í vörninni. Í raun má segja að ekkert banni slíkt fyrirkomulag, en í kerfinu hjá Saints munu menn hafa fengið bónusa ef þeir keyrðu andstæðinga svo harkalega í jörðina að þeir báru skaða af. Varnarþjálfarinn Gregg Williams var dæmdur í ævilangt bann og aðalþjálfarinn Sean Payton var dæmdur í heilsársbann. Eru þetta með harkalegustu refsingum í bandarískri íþróttasögu. Þá var framkvæmdastjórinn Mickey Loomis settur í átta leikja bann og aðstoðarþjálfarinn Joe Vitt í sex leikja bann.

Auk þeirra voru leikmennirnir Jonathan Vilma, Will Smith, Scott Fujita og Anthony Hargrove dæmdir í mismunandi langt bann. Hörðustu refsinguna fékk Vilma og var hann var dæmdur úr leik allt leiktímabilið 2012.

Leikmennirnir áfrýjuðu þessari ákvörðun deildarinnar og sögðu að fullyrðingar um að þeir hefðu viljandi reynt að skaða aðra leikmenn væru ekki á rökum reistar. Fyrrverandi framkvæmdastjóri NFL tók að sér að fara yfir athugasemdir leikmannanna og í vikunni kvað hann upp þann úrskurð að afnema ætti allar refsingar sem lagðar höfðu verið á leikmennina fjóra en að refsingar þjálfaranna ættu að standa.

Leikstjórnandi Saints, Drew Brees, olli töluverðu fjaðrafoki fyrr í haust þegar hann hélt því fram á samskiptavefnum Twitter að eina ástæðan fyrir refsingum liðsfélaga hans væri einhæf og óvægin fjölmiðlaumræða. Sakaði hann aðdáendur liðsins um að hafa gleypt gagnrýnislaust við ásökunum deildarinnar. Hann baðst síðar afsökunar á þessum ummælum sínum en fagnaði mjög hinni nýju ákvörðun framkvæmdastjórans fyrrverandi í vikunni. Mál fjórmenninganna ætti að vekja alla, íþróttaáhugamenn sem aðra, til umhugsunar um hina sígildu meginreglu að engan eigi að telja sekan fyrr en sekt hans hefur verið sönnuð og að óvægin fjölmiðlaumræða eigi ekki að hagga þeirri reglu.