*

Bílar 10. maí 2019

Dásamlegir dýrgripir

Einar Hörður Sigurðsson byggingameistari á glæsilegt bílasafn sem inniheldur þrjár gamla Porsche gullmola.

Róbert Róbertsson

Einar Hörður Sigurðsson byggingameistari á glæsilegt bílasafn sem inniheldur þrjár gamla Porsche gullmola. Sportbílarnir líta mjög vel út enda er vel hugsað um þá af eigandanum. Í dótakassanum hans Einars er einnig að finna 24 ára gamlan Mini appelsínugulan að lit sem hefði sómað sér vel í kvikmyndinni The Italian Job.

Bíladellan byrjaði hjá mér í kringum miðjan níunda áratuginn. Kunningi minn, Jón S. Halldórsson, heitinn keypti fyrsta 911 bílinn sem kom til Íslands. Ég keypti mér 924 sportbíl sem var fyrsti Porsche bíllinn minn og síðan eignaðist ég 944 bíl. Þetta voru fallegir og skemmtilegir bílar báðir tveir. Ég seldi bílana og fór að byggja mér hús og lét af allri bíladellu næstu 10 árin. Þá kom að því að dellan gerði aftur vart við sig, húsið komið upp og ekkert til fyrirstöðu að fara að leika sér aftur," segir Einar brosandi og heldur áfram:

„Þetta var árið 2000 og ég keypti þá 911 bíl af Ingimundi Sveinssyni arkitekt sem hafði flutt hann til landsins. Þetta er 911 Carrera með 3,2 lítra vél og 231 hestöfl. Þetta er ótrúlega skemmtilegur bíll. Hann var keyrður 62 þúsund km þegar ég eignaðist hann fyrir 19 árum og ég hef ekið honum 47 þúsund km á þessum tæpum tveimur áratugum. Ég hefði nú átt að vera búinn að keyra hann meira en það eru fleiri bílar sem þarf að hreyfa."

356 fær mestu athyglina

911 bíllinn er flottur en aðaldýrgripurinn í bílasafninu er 356 sportbíll frá árinu 1963. Þetta er elsti Porsche sportbíll á Íslandi og eini 356 bíllinn hér á landi. „Þetta er geggjaður bíll og fær mestu athyglina af þeim. Ég keypti hann árið 2007 og flutti hann inn frá Ameríku. Hann er með 90 hestafla vél. Það er skemmtileg saga að segja frá því þegar ég keypti hann. Ég ætlaði nú að selja 911 bílinn og kaupa nýlegri 911 en fann engan sem mig langaði virkilega mikið í. Ég fór í tölvuna og sá þennan fallega 356 bíl á uppboði á ebay. Ég var mjög hugsi hvort ég ætti að taka þátt í uppboðinu og var lengi með fingurinn á Enter takkanum en þorði ekki að ýta á hann. Sambýliskona mín hvatti mig þá til að ýta á takkann og reyna að kaupa bílinn sem ég gerði svo á endanum eftir mikla umhugsun þar sem ég sat sveittur við tölvuna. Ég hafði svo samband við eigandann sem bjó í Kaliforníu. Ég spurði hann beint út hvað hann vildi fá fyrir bílinn. Þegar hann heyrði að ég var frá Íslandi vildi hann endilega að ég fengi bílinn og honum fannst svo spennandi að selja hann til Íslands að hann blés uppboðið af. Ég keypti hann á góðu verði miðað við gengi krónunnar árið 2007. Þetta var allmikið ferðalag fyrir bílinn; Kalifornía, New York, Amsterdam og loks Ísland," segir Einar.

356 línurnar í nýjasta módeli 911

Bíllinn leit mjög vel út þegar hann kom í gámnum að sögn Einars. „Ég þurfti aðeins að láta endurnýja kremgulu málninguna á honum en annars var allt í fínu standi. Ég hef bara þurft að eyða eðlilegu viðhaldi í hann. Þegar maður kaupir svona gamla bíla er maður raunar að kaupa sér viðhald. Töskuna aftan á bílnum keypti ég í Fríðu frænku. Hún setur skemmtilegan svip á bílinn. 356 bíllinn er mjög fallega hannaður og enn má sjá 356 línurnar í nýjasta módeli Porsche 911. Sá sem teiknaði útlit 356 bílsins hét Erwin Komenda og er því miður lítið í umræðunni. Ferry Porsche var auðvitað yfirhönnuðurinn og fékk alla frægðina. Kowenda kom frá Daimler og sá einnig um útlitið á VW bjöllunni. Hann kom einnig að hönnun fyrsta 911 bílsins árið 1963. Þetta eru magnaðir bíllar sem hann teiknaði," segir hann.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér