*

Matur og vín 26. janúar 2013

„Dass“ hér og þar

Sögulegt gildi uppskriftabóka eykst þegar slettist smá á þær.

Edda Hermannsdóttir

Uppskriftabækur eru bækur sem er skemmtilegt að eiga enda margar þeirra algjört augnakonfekt. Vissulega hefur internetið breytt notkuninni því það er oft einfaldara að leita að ákveðnum uppskriftum þar. Hins vegar er einhver sjarmi við að stilla uppskriftabókunum upp á eldhúsbekk og glugga í þær þegar lagt er í verkið. Tala nú ekki um sögulegt gildi þeirra þegar slettist smá á þær. „Já, þarna er slettan frá síðustu jólum í sörubakstrinum.“

Það að vilja halda í uppskriftabækur, frekar en að nota alfarið internetið, er líklega sama togstreitan og hjá þeim sem vilja ekki hætta að lesa alvöru bækur og fara að notast við lesbretti eingöngu vegna þess að bókalyktin er svo góð. Ég byrjaði að æfa mig sjálf heima að baka þegar ég var níu ára og þá var eins og ég yrði fyrir einhvers konar hugljómun. Foreldrar mínir voru heppnir ef eldhúsið var nokkuð heillegt þegar þau komu heim. Það sem mér fannst mest heillandi var bökunarlyktin sem dreifði sér út um allt.

Hins vegar, hvers vegna veit ég ekki, hef ég aldrei kunnað að fylgja uppskrift bókstaflega. Mér finnst alltaf miklu betra að dassa og þess vegna harðneitaði ég að nota vog í eldhúsinu í mörg ár (þangað til slíku apparati var troðið inn á heimili mitt í formi jólagjafar). Þurr kaka, blaut kaka, sölt kaka og bara hreint út sagt vond kaka, með tilheyrandi vonbrigðum eldri bróður, er að mínu mati hluti af því að læra í eldhúsinu . Með tímanum virðist tilfinningin og bragð frekar ráða ferðinni en hnífsléttir desilítrar. Uppskriftabækurnar leggja grunninn en síðan fær maður að setja punktinn yfir i-ið með því að bæta við vanilludropum, skipta mjólk út fyrir AB-mjólk, tvöfalda súkkulaðiskammtinn og gera alls konar litlar breytingar sem geta breytt svo miklu. Dassið getur miklu breytt.

Stikkorð: Matargatið