*

Bílar 6. júlí 2019

Defender færist nær framleiðslu

Hinn nýi Land Rover Defender hefur færst nær lokaáfanga í þróunarvinnu verkfræðinga breska bílaframleiðandans.

Hinn nýi Land Rover Defender hefur færst nær lokaáfanga í þróunarvinnu verkfræðinga breska bílaframleiðandans áður en sjálf framleiðsla og markaðssetning jeppans hefst í Nitra í Slóvakíu. 

Nýlega lauk mánaðarlangri notkun starfsmanna alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna Tusk Trust í Kenía á einni af frumgerðum bílsins þar sem hann var nýttur til margvíslegra verndar- og vísindaverkefna í þágu ljóna á umfangsmiklu verndarsvæði villtra dýra í Borana. Tímann í Kenía nýttu tæknisérfræðingar Land Rover jafnframt til að fínpússa ýmis tæknileg atriði í búnaði bílsins sem snerta virkni hans og er því farið að styttast í að fjöldaframleiðsla bílsins hefjist í nýrri verksmiðju Jaguar Land Rover í Nitra í Slóvakíu.

Frumgerðin var útbúin felulitum til að auðvelda starfsmönnum verndarsvæðisins að fylgjast með dýrum í meira návígi en ella auk þess sem innra loftinntak bílsins er sérstaklega hátt sett undir vélarhlífinni til að gera starfsmönnum kleift að aka af öryggi yfir djúpar ár sem víða finnast á svæðinu. Á prófunartímabilinu var bílnum einnig ekið um torsóttar leiðir í grjóti, með þungan varning, við drátt og fleira sem gerir Land Rover áfram að einum eftirsóttasta „þarfasta þjóninum“ í ferðamennsku og verndarstarfi víða um heim, ekki síst í Afríku þar sem hann hefur verið ráðandi á sínu sviði um margra áratuga skeið.