*

Bílar 8. desember 2020

Defender valinn Bíll ársins hjá Top Gear

Bíll Land Rover hlaut bæði aðalbikarinn og aukaverðlaun bílasérfræðinga breska sjónvarpsþáttarins Top Gear.

Róbert Róbertsson

Land Rover Defender stóð uppi sem sigurvegar á úrslitakynningu Top Gear eftir harða baráttu um hylli bílasérfræðinga sem metið hafa kosti nýrra bíla sem kynntir hafa verið undanfarna tólf mánuði.

Defender hlaut flest heildarstig dómnefndar og þar með hinn eftirsótta titil Bíll ársins 2020 hjá breska bílatímaritinu.

Auk aðalbikarsins hlaut Defender aukaverðlaunin Hinn óstöðvandi kraftur ársins (The Unstoppable Force of the Year) fyrir sterklega og vel heppnaða hönnun og smíði.

Dómnefnd Top Gear var á einu máli um að hinn nýi Defender sé einn öflugasti bíllinn á götunni í dag og í raun snilldararftaki upphaflegu goðsagnarinnar um Land Rover á 21. öldunni.

Land Rover Defender 110 er stærri gerð nýrrar kynslóðar þessa sögufræga bíls. Defender er fáanlegur allt að 7 manna (2+3+2) og í mismunandi útfærslum, Base (standard), S, SE, HSE og X auk First edition til að byrja með.

Tvær vélar eru í boði, annars vegar tveggja lítra 240 hestafla dísilvél með tveimur forþjöppum og hins vegar 400 hestafla, þriggja lítra bensínvél HYBRID með rafmótor. Hægt er að fá jeppann 7 manna.

Stikkorð: Top Gear  • Land Rover  • Defender