*

Bílar 2. apríl 2012

DeLorean kemur á göturnar á næsta ári

Sportbíllinn DeLorean gengur í endurnýjun lífdaga eftir ár. Bíllinn var notaður sem tímavél í kvikmyndunum Back to the Future.

Framleiðendur DeLorean-bílanna í Texas í Bandaríkjunum hafa í hyggju að koma rafmagnsbíl undir þessu goðsagnakennda merki á göturnar á næsta ári.

DeLorean-bílarnir voru upphaflega framleiddir í bænum Dunmurry, suðvestur af Belfast á Norður-Írlandi. Líftíminn var ekki langur, hulunni var svipt af frumgerðinni árið 1976 og tóku bílar að aka úr verksmiðjunni á árabilinu 1981 til 1982. Seinna árið skall á kreppa í bandarískum bílaiðnaði og fór DeLorean-verksmiðjan í þrot.

Bílarnir sem fyrirtækið framleiddi á þessum tveimur árum eru um 9.000 talsins - allir af sömu gerðinni, DeLorean DMC-12. Talið er að um 6.500 þeirra séu enn til.

DeLorian-bíllinn var heimsþekktur þegar hann var notaður sem tímavél í kvikmyndaþrennunni Back to the Future sem sýndar voru á hvíta tjaldinu á árabilinu 1985 til 1990.

Breski frumkvöðullinn Stephen Wynne sem búið hefur í Bandaríkjunum í þrjá áratugi keypti DeLorean-vörumerkið árið 1995 og hefur fyrirtækið séð um viðhald þeirra DeLorean-bíla sem enn eru til. Á sama tíma lagði hann að framleiðslu á bílunum á nýjan leik.

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins, BBC, um bílinn að hann muni að flestu leyti líkjast upphaflegu gerðinni, með hurðum sem minna á vængi og opnast upp. Hins vegar verður ekki útvarp með innbyggðu kassettutæki heldur innstunga fyrir iPhone-farsíma.

Um 15 klukkustundir mun taka að hlaða rafhlöðu DeLorean-bílsins og verður mögulegt að bruna 160 kílómetra á einni og sömu hleðslunni.

Eins og staðan er núna er gert ráð fyrir að bílarnir muni koma 90 þúsund dali, jafnvirði rúmra 11 milljóna íslenskra króna. Þrjú hundruð bílar verða settir á markað fyrsta kastið.

Hér má sjá myndband af reynsluakstri rafmagnsbílsins.

 

  

Stikkorð: DeLorean