*

Bílar 1. september 2019

Demantar í afturrúðinni

Rögnvaldur á sérstaka hátíðarútgáfu af Lincoln Continental Mark V — Diamond Jubilee árgerð 1978.

Rögnvaldur Jóhannesson sem á Bílasölu Selfoss á forláta drossíu, Lincoln Continental Mark V. Þetta er sérstök hátíðarútgáfa Lincoln, Diamond Jubilee árgerð 1978, tveggja dyra og búin öllum helstu þægindum sem fyrirfundust á þeim tíma. Þetta er eini bíllinn sinnar tegundar svo vitað sé að hafi verið seldur nýr til Evrópu.

Bíllinn var í eigu Kjartans Sveinssonar byggingartæknifræðings sem flutti hann nýjan til landsins árið 1978. Bíllinn kostaði þá 12 milljónir króna eða svipað og fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík á þeim tíma. Bíllinn var dýrasti bíll sem fluttur hafði verið hingað til lands á þessum tíma.

„Kjartan keypti sér nýjan Cadillac Eldorado í Sambandinu árið 1976. Þetta þótti sjaldgæft á þeim tíma að menn löbbuðu inn í bílaumboð og keyptu bíl. Kjartan sagði mér að hann hefði aldrei verið sáttur við þann bíl og orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum. Þetta var mikil drossía en hann bilaði talsvert,“ segir Rögnvaldur en hann þekkti Kjartan vel og starfaði í 10 ár í Bón og þvottastöðinni sem var í eigu Kjartans.

Demantar í afturrúðunni

„Kjartan sagði mér eitt sinn frá því þegar hann var í heimsókn hjá Rolf Johansen heildsala á góðum haustdegi árið 1977. Það var Bandaríkjamaður í heimsókn hjá Rolf. Kaninn sagði þeim frá því að það væri að koma viðhafnarútgáfa af Lincoln sem væri miklu flottari en Cadillac en Kjartan og Rolf áttu einmitt báðir Cadillac. Kjartan fór í Ford umboðið til Sveins Egilssonar fljótlega eftir þetta og bar sig eftir þessum bíl sem von var á. Þar var honum sagt að það væri ekkert mál að fá tveggja dyra Lincoln en þessi viðhafnarútgáfa væri ekki í boði til útflutnings. Það var takmarkað upplag framleitt af þessari gerð og það mátti ekki selja þessa bíla út úr Bandaríkjunum. Það voru demantar í afturrúðunni og upphafsstafir eigandans settir í dyrnar,“ segir Rögnvaldur.

Lengi langdýrasti bíll á Íslandi

„Einhvern veginn tókst þeim samt í umboðinu að fá svona bíl fyrir Kjartan. Í mars 1978 kom bíllinn til landsins með upphafsstafina KS í hurðunum sitt hvoru megin og fullt nafnið hans á silfurplötu í mælaborðinu. Þessi drossía var aðalnúmerið á einni stærstu bíla-sýningu sem haldin hefur verið hér á landi. Þetta var risastór bílasýning í Húsgagnahöllinni. Bíllinn vakti að vonum gríðarlega athygli. Þegar gestir komu inn á sýninguna þá blasti þessi drossía við með kórónu á þakinu.

Þetta var lengi langdýrasti fólksbíll sem hafði nokkurn tíma verið keyptur á Íslandi. Þetta þóttu umdeild kaup í huga sumra. Þjóðviljinn skrifaði gegn bílnum og það var frekar neikvæð umfjöllun sums staðar af því hversu dýr hann væri en auðvitað voru flestir sem heilluðust af honum enda stórglæsilegur bíll.“

Með 460 kúbika sleggju

Rögnvaldur vann í 10 ár á Bón og þvottastöðinni sem var í eigu Kjartans. ,,Ég þekki fjölskylduna vel. Dætur Kjartans höfðu sam-band við mig þegar hann féll frá og þeim var ekki sama hvað yrði um bílinn. Þær buðu mér hann til sölu og úr varð að ég keypti bílinn fyrir fjórum árum. Þetta er auðvitað æðislegur bíll. Það er stærsti 8 slindra bensín-mótor sem var í boði á þeim tíma undir húddinu. Það er 460 kúbika sleggja í honum. Þetta er fyrsti fólksbíllinn sem er með eldsneytismæli sem segir þér hvað þú átt langa keyrslu eftir á tanknum.

Af því þetta er demantaútgáfa af bílnum þá eru stórir demant-ar í kýraugunum að aftan. Það eru alls kyns smáatriði sem gera bílinn svo rosalega flottan. Þetta er sams konar bíll og Jock Ewing, pabbi JR og Bobby, átti í Dallas-þáttunum.“

Nánar má lesa um málið í sérblaðinu Bílar, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.

Stikkorð: Bílar