*

Ferðalög & útivist 9. október 2019

Deplar áttunda besta lúxushótelið

Lesendur lúxusferðatímaritsins Condé Nast velja hótel á Tröllaskaga meðal 50 bestu í heimi.

Metfjöldi áskrifanda tímaritsins Condé Dast Traveler tóku þátt í árlegu vali á bestu lúxushótelum heims, en þetta er í 23. sinn sem tímaritið tekur saman slíkan lista. Var hótelið Deplar Farms í Fljótunum á Tröllaskaga valið það 8. besta en einungis 50 hótel komust á listann. Þátttakendur í atkvæðagreiðslunni heimsóttu í heildina um 10 þúsund hótel, sumardvalastaði og baðstofur.

Þegar lesið er í gegnum listann eru hótelin oft á afskekktum svæðum en með miklum lúxus og svo háu þjónustustigi að meðallesandanum sundlar við. Í efsta sætinu er Sirikoi Lodge í Kenýa, næst kemur L´Horizon Resort & Spa í Palm Springs í Bandaríkjunum en meðal efstu sætana eru einnig herragarðar á Írlandi, og tjaldbúðir í Kenýa.

Síðan segir um Deplar farm sem er eins og áður segir í 8. sæti að þetta sé ekki hinn venjulegi bóndabær. Staðurinn sé í eigu Eleven Experience, sem sé eitt áhugaverðasta hágæða ferðafyrirtæki í heiminum núna.

Á Deplum eru tveir þyrlupallar, inni-, og útilaug upphituð með jarðhita, bar með borði við laugina, og setustofa með gluggum sem ná frá gólfi upp í loft, nútímalistaverkum og gríðarlegu útsýni.

Síðan segja þeir að ekkert sé týpískt á Deplar, sem staðsett sé úr alfaraleið á Tröllaskaga, eða Troll peninsula eins og það er þýtt, sem sé með stórbrotinni fegurð, og einna bestu þyrluskíða og veiðimöguleikum sem völ er á í nágrenninu.

Eftir frekari hástemmdar lýsingar er síðan sagt að ferð á hótelið gefi þér svo sannarlega rétt til að slá þér á brjóst og monta sig af þegar heim er komið. Fyrirtækið er sagt koma á framfæri hinni fullkomnu blöndu hágæða sem og ævintýragirni en það á nú staði í Norður Ameríku, Karabíska hafinu og Evrópu sem höfði til slíkra ferðamanna.

„En Deplar Farm er einstakt. Loftið er hreint, snjórinn eins og púður, og á sumrin eru laxveiðiárnar hreinar, straumharðar og frjálsar,“ segir í umsögn timaritsins.