*

Bílar 29. júní 2017

Discovery bíll ársins hjá Auto Express

Nýr Discovery er í fyrsta sinn með yfirbyggingu úr áli sem gerir hann 490 kg léttari en eldri gerð.

Breska bílatímaritið Auto Express hefur valið Land Rover Discovery bíl ársins 2017. Discovery var einnig kosinn besti lúxusjeppinn í sínum stærðarflokki.

Að mati Auto Express var breski jeppinn talinn bestur út frá ýmsum þáttum m.a. tækninýjungum sem þykja margar hverjar byltingakenndar í jeppanum. Útlit hans þykir sérlega vel heppnað að mati tímaritsins. Innanrými jeppans þykir mjög vel hannað og vandað. Innanrýmið tekur m.a. tillit til gæludýra og þá komast sjö farþegar auðveldlega fyrir á þægilegan hátt. Í niðurstöðu dómnefndar segir ennfremur að þótt útlitið kunni ekki að falla öllum í geð sé augljóst að bíllinn veki eftirtekt alls staðar.

Nýr Discovery er í fyrsta sinn með yfirbyggingu úr áli sem gerir hann 490 kg léttari en eldri gerð. Hæfni við erfiðar aðstæður hefur verið aukin með endurbættu Terrain Response drifkerfi og loftpúðafjöðrun sem gerir ökumanni kleift að hækka bílinn upp og ná allt að 28,3 cm veg­hæð og 90 cm vaðhæð sem er nokkur sérstaða í þessum flokki bíla. Þetta gerir Disvovery einn allra öflugasta jeppann frá Land Rover.