*

Menning & listir 17. janúar 2013

Django Unchained: Enn eitt meistaraverkið frá Tarantino

Blaðamaður Viðskiptablaðsins fór á forsýningu kvikmyndarinnar Django Unchained og gefur henni bestu mögulegu meðmæli.

Gísli Freyr Valdórsson

Bandaríski leikstjórinn Quentin Tarantino hefur nú sent frá sér enn eitt stórverkið, kvikmyndina Django Unchained. Blaðamaður Viðskiptablaðsins fór á forsýningu myndarinnar í síðustu viku. Myndin fær fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Myndin gerist árið 1858, rétt áður en þrælastríðið svokallaða (e. Civil war) hófst í Bandaríkjunum. Myndin byrjar á því að verið er að flytja hóp þræla en þeirra á meðal er Django, sem leikinn er af Jamie Foxx. Hann hafði verið seldur og um leið aðskilinn frá konu sinni, hinni þýskumælandi Broomhildu (leikin af Kerry Washington). Þegar verið er að flytja þrælana verður þýski hausaveiðarinn, Dr. King Schultz (leikinn af Christoph Waltz), á vegi þeirra og frelsar Django úr ánauðinni. Um leið upplýsir hann Django um að hann þurfi aðstoð hans við að finna hina illræmdu Brittle bræður sem Django þekkir í sjón (og voru verkstjórar á plantekrunni þar sem Django og Broomhildu var haldið sem þrælum). Hann býður Django 75 dali, hest og frelsi fyrir að klára verkið.

Samstarf þeirra þróast frekar og þeir fara saman í hausaveiðarageirann, enda freistandi tilboð fyrir Django að fá að drepa hvíta illræmda glæpamenn – gegn greiðslu.

Markmið Django er þó alltaf að finna konu sína og saman komast þeir að því hvar henni er haldið í þrælkun. Dr. Schultz er ekki síður spenntur fyrir því að hitta þýskumælandi blökkukonu. Eigandi hennar er nú Calvin Candie (leikinn af Leonardo DiCaprio). Django og Schultz gera honum viðskiptatilboð og fara í kjölfarið með honum til Candyland, þar sem Broomhildu er haldið í þrælkun. Schultz kynnir Django sem frjálsan mann þó mörgum finnist skrýtið að sjá blökkumann í kúrekafötum á hestbaki, enda nær óþekkt á þessum tíma.

Í Candyland ræður húsþrællinn Stephen (leikinn af Samuel L. Jackson) ríkjum. Hollusta hins geðstirða Stephen liggur fyrst og fremst við húsbónda sinn, Calvin Candie. Hann kemur fram við hina þrælana af mikilli hörku, svo vægt sé til orða tekið, og er skeptískur á þessa nýju viðskiptavini húsbónda síns sem hann grunar um græsku. Við tekur ótrúleg flétta þar sem hver leikarinn sýnir snilldarleik og að sjálfsögðu verður ekki gefið upp hér hvernig sú flétta myndast.

 

Ekki bara strákamynd

Þeir sem voru ánægðir með síðustu mynd Tarantino, Inglourious Basterds, verða ekki sviknir af Django Unchained. Hér er valinn leikari í hverju rúmi. Jamie Foxx fer vel með hlutverk Django. Hinn þýski Christoph Waltz (sem fór með hlutverk hins illræmda nasista í Inglourious Basterds) leikur hinn litríka karakter Dr. King Schultz og bætir talsverðum húmor við í mynd sem fjallar meira og minna um ólíkar – og í flestum tilvikum ljótar – hliðar á þrælahaldi. Waltz hefur með þessum tveimur kvikmyndum stimplað sig inn sem stórleikara. Waltz er auðvitað enginn nýliði í leiklistinni, en þetta eru líklega þau hlutverk sem reist hafa stjörnu hans hvað hæst.

Leonardo DiCaprio leikur hinn illræmda, en um leið sjarmerandi, þrælahaldara Calvin Candie. Það er erfitt að fjalla nánar um hlutverk hans án þess að upplýsa of mikið um söguþráð myndarinnar, en lesendur verða að treysta á orð þess sem hér skrifað að DiCaprio leysir hlutverk sitt frábærlega af hendi. Sem fyrr segir nær hann að leika sjarmerandi en um leið sturlaðan karakter með einstaklegum hætti. Sagan segir að þeir DiCaprio og Foxx hafi ekki yrt á hvorn annan á meðan tökum myndarinnar stóð. Það var þó ekki af illum hug heldur komum þeir skilaboðum til hvors annars í gegnum þriðja aðila að halda karakter, eins og það er kallað, á meðan tökum stóð. Þeir féllust þó í faðma eftir að tökum lauk. Fagmennskan í fyrirrúmi.

Annar ógleymanlegur karakter í myndinni er yfirþrællinn Stephen sem túlkar er af stórleikaranum Samuel L. Jackson. Stephen er það sem kallað er húsþræll og þar með yfirmaður allra annarra þræla í Candyland. Fyrir utan það að vera þrælasali en það víst næst versta hlutverk blökkumanns að vera yfir húsþræll á þeim tíma sem myndin gerist. Atriðið þegar Candie kemur með gesti sína til Candyland er hreint út sagt magnað og það er bara byrjunin á stórleik Jackson.

Tarantino á sjálfur stutta innkomu í myndina en fer út úr henni með látum. Myndin inniheldur allt sem góð mynd þarf að innihalda, drama, mikinn húmor, mikið af blóði og skemmtilegan söguþráð. Þrátt fyrir mikið magn af blóði er þetta ekki „strákamynd“ í þeim skilningi og ég stórsé eftir því að hafa ekki boðið eiginkonu minni með á forsýninguna. Það þýðir bara eitt, ég verð að sjá hana aftur og þá verður henni boðið með.

Christoph Waltz og Jamie Foxx í hlutverkum sínum í Django Unchained.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þýski leikarinn Christoph Waltz túlkar hausaveiðarann Dr. King Schultz með stórkostlegum hætti. Það er ekki á færi allra að fá áhorfendur til að líka við og hlæja með hausaveiðara og leigumorðingja. 

Leonardo DiCaprio í hlutverki þrælahaldarans og viðskiptamannsins Calvin Candie. Karakter hans er sjarmerandi en um leið sturlaður. DiCaprio hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum á undanförnum árum og mikið vatn runnið til sjávar eftir að hann lék í Titanic árið 1997.

Samuel L. Jackson í ógleymanlegu hlutverki sem skapstirði húsþrællinn Stephen. Eins og svo oft áður sýnir Jackson snilldarleik.

Hér er skjáskot úr einu besta atriði myndarinnar. Húsþrællinn Stephen (leikinn af Samuel L. Jackson) getur ekki leynt hneykslun sinni á því að „negri" skuli ríða hesti sem frjáls maður og lætur húsbónda sinn heyra það fyrir vikið.

Stikkorð: Django Unchained