*

Bílar 9. október 2012

Djarfari Auris

Toyota kynnti nýjan Auris á bílasýningunni í París á dögunum. Bílnum er ætlað að keppa gegn VW Golf og Ford Focus.

Róbert Róbertsson

Nýr  Toyota Auris var kynntur til leiks á bílasýningunni í París á dögunum. Bíllinn verður einnig boðinn í Hybrid útgáfu en í þeirri tækni stendur Toyota mjög sterkt að vígi. Nýr Auris hefur breyst talsvert í útliti og þykir laglegri en áður. Bíllinn er straumlínulagaðri en forverinn og með djarfari línur. Þannig er grillið djarfara, hönnunin á ljósunum kraftmeiri þar sem LED ljósabúnaður verður áberandi. Afturendi bílsins er eftirtektarverðari en áður. Þá verður talsvert af nýjum búnaði til að gleðja kaupendur.

Bíllinn fær líka nýjar vélar. Hann er smíðaður í Burnaston verksmiðju Toyota í Derbyshire í Bretlandi og verður honum stefnt gegn vinsælum bílum eins og VW Golf og Ford Focus. Auris hefur verið vinsæll bíll undanfarin ár og frosvarsmenn Toyota eru án efa með háar væntingar til nýja bílsins. Hann kemur á markaði í Evrópu í byrjun næsta árs. Bílablaðamönnum verður boðið að reynsluaka bílnum í Lissabon í byrjun desember.

Hér má sjá bílinn á sýningunni.

Stikkorð: Toyota Auris