*

Bílar 7. júlí 2017

Dodge Daytona í uppáhaldi

Villi eins og hann er alltaf kallaður er mikill bílaáhugamaður og líður hreinlega ekki vel nema hann skipti um bíl á nokkurra mánaða fresti.

Róbert Róbertsson

Vilhjálmur Hreinsson er annar tveggja eigenda Regalo, umboðsaðila hármerkjanna Maria Nila, Morocconoil og TIGI. Villi eins og hann er alltaf kallaður er mikill bílaáhugamaður og líður hreinlega ekki vel nema hann skipti um bíl á nokkurra mánaða fresti. Hann er sérlegur aðdáandi Mercedes-Benz í seinni tíð og er á nýlegum C-Class í AMG útfærslu en stefnir á að skipta fljótlega í GLE jeppann.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Í gamla daga átti ég Dodge Daytona árgerð 1985. Ég flutti einn slíkan kagga inn frá Oklahoma þar sem ég keypti hann. Þetta var skruggukerra og þegar ég hugsa til baka um alla bílana mína í gegnum tíðina þá hugsa ég alltaf til þessa bíls. Hann var mjög sérstakur og eftirminnilegur í mínum huga. Það voru fáir sem áttu sportbíla á þessum tíma á Íslandi. Það var mjög mikið eftir þessum bíl tekið. Ég var stoppaður stundum niðri á Hallærisplani þar sem fólk vildi taka mynd af bílnum. Í seinni tíð er það bíllinn minn í dag, Mercedes-Benz C-Class í AMG útfærslu sem er í uppáhaldi. Hann er sérlega spennandi. Það er afar skemmtilegt að keyra um á honum.”

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Sú bílferð sem situr mest í mér var þegar ég var á leið frá Siglufirði til Reykjavíkur á áðurnefndum Dodge Daytona. Þetta eru allmörg ár síðan en ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Vinur minn var með í bílnum og spyr mig hvort hann megi ekki keyra kaggann svo ég geti lagt mig a eins. Ég leyfði honum að keyra og lagði mig í farþegasætinu. Ég vakna skyndilega upp við það að við erum við að fara fram úr rútubifreið á geysimikilli ferð. Mér brá svo við þetta því vorum á svo miklum hraða og sá bara hvar við þutum fram úr rútunni. Þetta fór nú allt vel sem betur fer og félaginn komst fram úr rútunni en ansi brá mér þarna. 

Ein skemmtilegri minning er bílferð á þessum sama eðalbíl. Ég stoppaði á rauðu ljósi í Hafnarfirði og við hliðina mér stoppaði alveg eins bíll. Við þöndum kaggana og svo tók ég eftir að ungur bílstjórinn elti mig alla leið heim. Þar spjölluðum við um bílana og að áttum þetta sameiginlega áhugamál. Það tókst upp frá þessum óvænta hittingi mikil vinátta með okkur og enn í dag erum við Richardo Mario Villalobos miklir vinir og rifjum þessa ökuferð oft upp.

Önnur eftirminnileg ferð var þegar ég var í Þýskalandi fyrir þremur árum. Ég fékk að taka í svakalega öflugan MercedesBenz AMG 63 sem er í eigu vinar míns þar. Ég tók í hann á Autobahn hraðbrautinni og það var svakalega skemmtilegt. Þegar maður gaf honum inn þá þrengdust sætin að manni og héldu manni alveg blýföstum.”

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)? 

,,Vignir Már Haraldsson er besti bílstjórinn. Hann hefur alltaf haft áhuga á hraðakstri og leikur sér mikið á brautum erlendis. Hann er mjög öruggur. Hann hefur gaman af að keyra hratt en maður er aldrei hræddur í bíl með honum.“

 En versti bílstjórinn?

,,Það er stjúpi minn, Haukur Helgason. Hann er skelfilegur bílstjóri. Sá versti sem ég þekki. Það eru til margar góðar sögur af honum undir stýri. Hann keyrði einu sinni á bílskúrshurðina heima. Gleymdi að bremsa.“

Nánar er fjallað um Opelinn í blaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu hér.

Stikkorð: Daytona  • bílar  • Dodge