*

Matur og vín 13. febrúar 2014

Dömunum boðið freyðivín á degi ástarinnar

Margir gera sér dagamun á Valentínusardaginn á morgun. Á Grillinu verður boðið upp á sérstakan fjögurra rétta matseðil.

Jón Hákon Halldórsson

Á morgun, hinn 14. febrúar, er messudagur heilags Valentínusar. Dagurinn er helgaður ástinni og nýta mörg pör hann til þess að gleðjast með gjöfum. Það upplifa því margir meiri rómantík þennan dag en aðra daga ársins. Það eru nokkrir áratugir liðnir síðan Íslendingar fóru að gera sér dagamun í tilefni af Valentínusardeginum.

Í Morgunbaðinu árið 1958 var dagsins minnst. Í umfjölluninni segir að mest sé aðhafst vegna dagsins í Ameríku en minna hér á landi. „Þó hafa blómaverzlanir í Reykjavík til sölu litla blómavendi sem hnýttir hafa verið í tilefni dagsins,“ segir í umfjölluninni.

Á Grillinu á Hótel Sögu verður boðið upp á sérstakan matseðil þannig að ástfangin pör geti notið sín betur.

„Við ætlum að vera með sérstakan fjögurra rétta matseðil. Síðan ætlum við líka að taka á móti dömunum með freyðivínsglasi og rauðri rós. Það er það sem við ætlum að gera sérstakt í tilefni þessa dags. Þessi seðill verður á tilboði,“ segir Jakob Már Harðarson, veitingastjóri á Grillinu.