*

Menning & listir 2. september 2013

Dómur: Hross í oss - fyndinn en brokkgengur söguþráður

Kvikmyndin Hross í oss er fyrsta kvikmynd Benedikts Erlingssonar í fullri lengd. Viðskiptablaðið er búið að sjá myndina.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Hestamyndin Hross í oss var frumsýnd fyrir helgi. Þetta er sveitamynd um hesta, fyrsta mynd Benedikts Erlingssonar í fullri lengd. Benedikt er það sem kalla má reynslubolta bæði á sviði og við myndavélina en fyrir nokkrum árum gerði hann m.a. stuttmyndina Naglinn, sem var bráðskemmtileg. Er þá ótalin frammistaða hans í leikhópnum Fóstbræðrum og leikritunum Mr. Skallagrímsson og Ormstunga, sem verður að teljast í meistaraklassa.

Hross í oss er kynnt sem grimm sveitarómantík um það mennska í hrossinu og hrossið í manninum þar sem ást, kynlíf, hrossum og dauða er fléttað saman. Í myndinni er semsagt sögð saga Kolbeins sem unnir Gránu hryssu sinni og Sólveigu sem fellur hug til Kolbeins. Ingvar E. Sigurðsson leikur Kolbein og Charlotte Böving Sólveigu. Samleikur þeirra er skemmtilegur en ekki orðamargur þar sem látbragð og augnagotur segja meira en mörg orð. Hestar í myndinni komu afspyrnuvel út og voru fagrir á hvíta tjaldinu framan við linsu Bergsteins Björgúlfssonar.

Byrjun myndarinnar er frábær og hlógu bíógestir nær viðstöðulaust. Hins vegar fjaraði svolítið hratt undan handritinu. Ástarsagan vék til hliðar fyrir nokkrum öðrum sögum, tveimur sem gengu út á að fjölga ekkjum í sveitinni og annarri sem sýndi ástarhug suður-amerísks túrista til sænskrar hestakonu og samneytis þeirra. Þegar þar var komið við sögu virtist fjara svolítið undan aðalsögunni, ástir þeirra Kolbeins og Sólveigar urðu að aukakafla í myndinni og var óvíst um tíma um hvað myndin snerist. Í raun hefði mátt sleppa útlendingunum enda gerði sá hluti myndarinnar lítið ef nokkuð fyrir heildina. Að því sögðu verður Hross í oss að teljast áhugaverð tilraun sem gengur ekki upp nema að hluta.

Í hnotskurn: Miðað við þrusuflotta fortíð Benedikts Erlingssonar þá bjóst ég við við meiru af Hross í oss. Myndin varð vart meira en skemmtileg kvöldskemmtun. Hún missti of fljótt fókusinn á aðalatriðinu og reyndi að segja of margar sögur á 85 mínútum. 

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.