*

Tölvur & tækni 29. janúar 2013

Dómur: Spjaldtölva frá Olivetti grandskoðuð

Ítalska fyrirtækið Olivetti er umsvifamikið á fyrirtækjamarkaði. Viðskiptablaðið prófaði spjaldtölvuna Olipad 3 frá Olivetti.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Ritvél frá ítalska fyrirtækinu Olivetti leikur stórt hlutverk í bókinni Suðurglugganum eftir Gyrði Elíasson. Bókin fjallar í stuttu máli um rithöfund sem glímir bæði við ritstíflu og bókstafinn b, sem gerir rithöfundinum erfitt fyrir. Fyrsta ritvélin frá Olivetti kom af færibandi fyrirtækisins fyrir einum 105 árum og hefur margt gerst síðan þá.

Fyrir þá sem ekki þekkja sögu Olivetti þá heyrir ritvélasmíðin sögunni til. Fyrirtækið fór út í framleiðslu á reiknivélum undir eigin merkjum og tölvuframleiðslu um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Þegar netbólan stóð sem hæst árið 1999 skelltu stjórnendur Olivetti sér í slaginn um einkavæðingu ítalska landssímans og höfðu þeir betur á móti risum á borð við Deutsche Telecom. Olivetti, sem er í dag hluti af fyrirtækjasamstæðu Telecom Italia, hefur um árabil verið umsvifamikið á fyrirtækjamarkaði og stendur ansi framarlega í tölvuframleiðslu á meginlandi Evrópu þótt sú staða hafi farið heldur hljóðlega hér á landi.

Olipad 3

Tæp tvö ár eru síðan Olivetti lét að sér kveða á spjaldtölvumarkaðnum með Olipad-tölvunni. Þar var eftir talsverðu að slægjast enda fáir um hituna um það leyti þótt Apple hafi rutt brautina með iPad-tölvunum nokkur fyrr. Þriðja spjaldtölva Olivetti, Olipad 3 kom á markað í fyrra. Spjaldtölvur Olivetti eiga það sameiginlegt með öðrum keppinautum að hér er ekki verið að plægja nýjan akur.

Léttari en keppinautarnir

Olipad 3-tölvan er með 10 tommu HD-skjá, keyrir á Ice Cream Sandwich (4.0 Android-stýrikerfið frá Google) og með fjórkjarna 1,4 Ghz NVIDIA 3-örgjörva. Vinnsluminnið er upp á 1 GB og skyndiminnið 16 GB, sem er alveg nóg enda hægt að bæta minniskorti í græjuna. Myndavélarnar eru tvær; 8 MP myndavél aftan á tölvunni og 2 MP vél framan á henni. OliPad 3 getur tengst öllum netkerfum nema fjórðu kynslóðinni, er með innstungu fyrir heyrnartól, USB-snúrur og fleira til og skortir fátt. Þá vegur tölvan 571 grömm og þar með 91 grammi léttari en nýjasta iPad-tölvan af svipaðri stærð.

Þetta er þægilegasta tölva sem keyrir hratt og vel og hnökralaust þótt myndavélin mætti að vísu vera betri. Myndir má þó laga til eins og kostur er með þeim forritum sem fáanleg eru í smáforritaverslun Google. Helsti kosturinn við tölvuna er hins vegar skjárinn en hann endurvarpar ekki frá sér ljósi í sama mæli og sambærilegar tölvur, s.s. Kindle Fire-lestölvurnar. Það besta verður þó að teljast bakhlið Olipad-tölvunnar sem er úr einhvers konar gúmmíi og kemur í veg fyrir að notendur missi takið á henni. Samkvæmt upplýsingum frá umboðsaðila Olivetti á Íslandi er væntanleg önnur gerð Olipad-tölvunnar sem keyrir á stýrikerfinu Windows 8.

Í hnotskurn:

Olipad-spjaldtölvan frá Olivetti vinnur hratt og hnökralaust. Skjárinn er góður og endurvarpar ekki ljósi frá sér og því betra að nota hann en sambærilegar tölvur. Helsti ókosturinn er hins vegar verðið. Ein tölva kostar rétt tæpar 100 þúsund krónur, sem er á svipuðu róli og aðrar spjaldtölvur með svipaða tengimöguleika við netið. Til samanburðar kostar iPad Mini sem styður við 3G 90 þúsund krónur og er Galaxy Tab frá Samsung yfir 100 þúsund kallinum.

Hér má skoða nokkrar myndir sem teknar voru af blaðamanni Viðskiptablaðsins prófa spjaldtölvuna frá Olivetti.

Notendaumhverfið í Olipad 3 er aðeins frábrugðið því sem fólk á að venjast. 

Hér má sjá þau forrit sem hafa verið sett upp.

Vb.is, fréttavefur Viðskiptablaðsins, kemur vel út á skjánum. 

Einfalt mál er að tengjast netverslun Google og sækja sér leiki. Hafa ber í huga að hér er tölvunni haldið á móti glugga og því er endurkastið af sólarljósinu óvenju mikið.

Stikkorð: Olipad 3  • Olivetti