*

Hitt og þetta 11. september 2013

Donald Trump breytir pósthúsi í lúxushótel

Brátt verður gamla pósthúsbygging Washington D.C. eitt fremsta lúxushótel í heimi.

Fasteignajöfurinn Donald Trump hyggst breyta einni af sögufrægustu byggingum Washington í eitt flottasta lúxushótel í heimi. Framkvæmdin verður liður í yfirhalningu á miðbæ höfuðborgarinnar.

Byggingin er gamla pósthús Washington. Trump segir að engu verði til sparað þegar kemur að því að endurgera húsið. Pósthúsið var byggt 1890 og stendur mitt á milli Hvíta hússins og þinghússins við Pennsylvania Avenue.

Á blaðamannafundi sagði Trump að hótelið verði stórkostlegt. Áætlað er að framkvæmdin muni kosta 200 milljón dali. Herbergin verða 270 talsins og meðalstærð herbergis verður 56 fermetrar. Og í hverju herbergi verður kristalsljósakróna. 

Hótelið mun heita Trump International Hotel, The Old Post Office Building. Framkvæmdir hefjast vorið 2014 og stefnt er að því að opna hótelið árið 2016. Sjá nánar á Stuff.co.nz.