*

Menning & listir 1. júlí 2015

Donna Karan hætt

Enn er ekki búið að ráða nýjan yfirhönnuð hjá Donna Karan International.

Tískuhönnuðurinn Donna Karan, stofnandi og yfirhönnuður Donna Karan International hefur tilkynnt að hún sé hætt hjá fyrirtækinu. Donna Karan er 66 ára gömul, hún stofnaði fyrirtækið fyrir 31 ári síðan og hefur haft gríðarleg áhrif í bandaríska tískuheiminum síðastliðna áratugi.

Hún mun áfram veita ráðgjöf hjá Donna Karan International en einbeita sér að Urban Zen línunni sinni. LVMH Moët Hennessy Louis Vuitton, frönsk lúxus samsteypukeðja keypti Donna Karan árið 2001 fyrir yfir 200 milljónir bandaríkjadala. Forsvarsmaður þeirra hefur sagt að ekki enn er búið að ráða nýjan yfirhönnuð.

Eftir að hægri hönd Karan, Patti Cohen hætti í síðasta mánuði var talið að ekki væri langt í að Karan myndi hætta. Framleiðsla á nýjum línum er stopp í augnablikinu og verður Donna Karan ekki sýnt á tískuvikunni í New York í haust.

Stikkorð: LVMH  • Donna Karan