*

Tíska og hönnun 13. september 2013

Dramatísk en heimilisleg íbúð við Park Avenue

Laufblöð úr 24 karata gulli skreyta innganginn í einstakri íbúð við Park Avenue í New York.

Aðeins þrír eigendur hafa búið í íbúðinni 655 Park Avenue sem nú er til sölu á Manhattan í New York.

Íbúðin er einstök og þykir aldeilis stórkostleg en fjallað er sérstaklega um eignina í The New York Times hér.

Hún var fyrst í eigu Rockefeller fjölskyldumeðlims árið 1924 en hann hélt sérstaklega upp á arna úr marmara og enska viðarantík.

Núverandi eigandinn heitir Karen McGarry Karp og er listaverkasafnari og áhugamanneskja um hönnun. Hún hefur búið í íbúðinni í 23 ár. Í viðtali við The New York Times segir hún eignina vera elegant, dramatíska en um leið heimilislega.  

Laufblöð úr 24 karata gulli skreyta einkaholið sem gestir stíga inn í út úr lyftunni áður en gengið er inn í íbúðina. Hún er tólf herbergja og þar af eru fimm svefnherbergi. Borðstofan er í stærri kantinum en þar komast 36 manns fyrir og útsýnið er í vestur, norður og austur. Í stofunni er tæplega 2 metra hár arinn úr marmara og inngangur í bókaherbergi. 

Íbúðin kostar 16,9 milljónir dala eða 2 milljarða króna og hússjóður (mánaðarleg gjöld) eru 10.950 dalir eða 1,3 milljónir króna.

 

 

 

 

Stikkorð: Fasteignir  • Park Avenue