*

Bílar 26. janúar 2014

Dramatískasta bílaauglýsing sögunnar?

Ein dramatískasta bílaauglýsing seinni tíma var frumsýnd í Svíþjóð um helgina. Zlatan Ibrahimovic og Volvo tóku höndum saman.

Sænski knattspyrnusnillingurinn Zlatan Ibrahimovic leikur í nýrri Volvo-auglýsingu. Í auglýsingunni sést Zlatan með fjölskyldu sinni en þó er hann mest sýndur einn.

Hann gengur um skóglendi um miðjan vetur með riffil á bakinu í leit að bráð. Hann stingur sér til sunds í ísilögðu vatni í nærbuxunum einum klæða, hann tekur upphífingar inni í kofa þar sem hann skartar öllum tattúunum sínum. Undir öllu þessu les hann textann við nýja útgáfu af sænska þjóðsöngnum.

Sagan segir að Zlatan hafi varpað fram þeirri hugmynd við gerð auglýsingarinnar að í staðinn fyrir vera sýndur við veiðar á elg, væri hann sýndur veiða Pep Guardiola. Guardiola þessi var þjálfari Barcelona þegar Zlatan lék þar og áttu þeir félagar ekki skap saman. Ef þetta er rétt þá náði hugmynd Zlatans að minnsta kosti ekki fram að ganga því Guardiola er hvergi sjáanlegur.