*

Ferðalög & útivist 31. október 2013

Draugalegustu staðir í Evrópu

Kirkja skreytt beinagrindum, yfirgefinn dalur fullur af grafhýsum eða dimmur skógur í Rúmeníu. Þetta eru staðir sem þykja draugalegir.

Í dag er hrekkjavaka og þá er nú aldeilis tíminn til að fara út og láta eitthvað eða einhvern hræða úr sér líftóruna. Fyrir ykkur sem eruð akkúrat stödd á meginlandi Evrópu þá birtir The Guardian í dag prýðilegan lista með draugalegustu stöðum Evrópu, að þeirra mati.

The Sedlec Ossuary í Tékklandi

Beinakirkjan eða The Sedlec Ossuary í bænum Kutna Hora klukkutíma austur af Prag er í efsta sæti. Að utan er kirkjan látlaus en þegar stigið er inn í hana koma í ljós 40 þúsund beinagrindur. Beinagrindurnar eru fórnarlömb plágunnar miklu og er þeim staflað frá gólfi og upp í rjáfur. Sumar eru jafnvel notaðar í innréttingar og aðrar sem skraut. Kirkjan er í raun bara stórt beinagrindagallerí.

City of the Dead í Norður-Ósetíu í Rússlandi

Í dal í Rússlandi er yfirgefin þyrping húsa utan í hlíð. Dalurinn er í Norður-Ósetíu. Ekki er auðvelt að ferðast til dalsins en hann er í þriggja klukkustunda ökuferð frá Tbilisi flugvellinum í Georgíu. Þegar komið er inn í húsin kemur í ljós að þau eru grafhýsi og þau elstu eru frá 16. öld. Heilu fjölskyldurnar voru grafnar saman í húsunum og þar má sjá beinagrindur og aðrar eigur þeirra. Sagan segir að þeir sem heimsækja svæðið komi aldrei til baka.

Hoia-Baciu skógurinn í Cluj-Napoca, Rúmeníu

Ferðamenn í leit að hryllingi fara margir í Bran kastalann í Rúmeníu sem er orðin hálfgerð túristagildra. Fólk sem er að leita að alvöru draugagangi ætti frekar að fara í Hoia-Baciu skóginn í Rúmeníu í borginni Cluj-Napoca. Fjölmargar sögur segja að þar sé reimt og að um skóginn ráfi furðuleg dýr. Einnig hafa sést fljúgandi furðuhlutir úr skóginum. Sumsé, paradís þeirra sem vilja missa vitið úr hræðslu í skógi.

Fleiri staðir á lista The Guardian eru:

  • Capuchin katakomburnar: Palermo, Sikiley.
  • Hill of Crosses: Šiauliai, Litháen.
  • The Crypt of Santa Maria: Róm, Ítalía.
  • Capuchin Crypt: Brno, Tékkland.
  • Chapel of Skulls: Kudowa-Zdrój, Pólland.
  • The Halstatt Bonehouse: Hallstatt, Austurríki.
  • Vodnjan mummies: Vodnjan, Króatía.