*

Bílar 23. júlí 2012

Draugurinn reyndist vera leikfangahumar

Það eru margir sem eiga skemmtilegar sögur af skrautlegum bílferðum. Hugrún Halldórsdóttir taldi leikfangahumar vera draug.

"Ætli það sé ekki drauga-taugaveiklunarrúnturinn á Spáni," segir Hugrún Halldórsdóttir, fréttamaður á stöð 2, spurð um eftirminnilegustu bílferðina. Hún lýsir bílferðinni svona:

Ég fór til Xabía með nokkrum vinum árið 2008 og við leigðum þar bílaleigubíl. Ég tók að mér bílstjórahlutverkið sem gekk alveg ágætlega þar til við þrjár vinkonurnar vorum aðeins of lengi úti í Alicante og skollið á kolniðamyrkur. Ég var nýbúin var fara í Lasik aðgerð á augunum og var með takmarkaða nætursjón. Lýsingin þarna úti var ekki eins góð og hér heima og akreinar ótrúlega illa merktar.

Það áttu fleiri erfitt með sig í umferðinni þetta kvöldið því við rákumst til að mynda á konu sem keyrði á móti umferð. Engum datt í hug að stoppa en það fóru hnefar á loft og einhver fúkyrði. Eftir mikið erfiði komumst við loks út á hraðbrautina og þar tók við taugaveiklunarástand. Vinkona mín í farþegasætinu taldi sig hafa séð draug og öskraði af öllum lífs og sálar kröftum.

Draugurinn atarna reyndist þó vera lítill leikfangahumar sem hékk í bílglugganum en þessi missýn lýsir best því ástandi sem við vorum í. Við kvöddum hraðbrautina og ákváðum að fara sveitavegina í staðinn á lúsarhraða sem þýddi að við vorum marga klukkutíma á leiðinni. Vinir okkar sem biðu heima í Xabía voru orðnir ansi smeykir þegar við skiluðum okkur ekki heim á tilsettum tíma, en þeir voru búnir að elda og taka upp dýrindis spænskt rauðvín sem við tókum opnum örmum lúnar að lokinni ferð.

Nánar er rætt við Hugrúnu um ýmislegt sem viðkemur bílum og bílferðum í Bílablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.