*

Bílar 12. febrúar 2015

Draumabíllinn er handsmíðaður Geländer-jeppi

Forstjóri Öskju segist ekki hafa kynnst neinum bíl með jafn mikinn karakter og Benz G-jeppann sem smíðaður er í Austurríki.

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, segir að draumabíllinn sé Geländer jeppinn en að í dag aki hann um á Mercedes-Benz M-Class.

„Þetta er frábær bíll sem hefur verið meðal okkar mest seldu bíla í áraraðir," segir Jón Trausti um Benz M-Class. „Hann er með nýrri vél sem er að eyða rétt um 8 lítrum á hundraðið sem er flott miðað við þetta stóran bíl. Ég er með börn og líka hund og þarf að geta komið öllum fyrir þannig að allir séu ánægðir.

Draumabílinn minn er svo Geländer jeppinn. Ég væri alveg til í að eignast einn slíkan. Til að byrja með væri fínt að eignast svona 10-15 ára gamlan bíl og svo myndi ég þrepa mig upp á næstu árum.

G-Landerinn er smíðaður í Austurríki og ég hef ekki kynnst neinum jeppa sem er eins mikill karakter og hann. Algjörlega handsmíðaður og á 35 ára ferli bílsins hefur hann styrkt sig með hverju ári. Ég efast um að nokkur önnur tegund státi sig af jafn háu hlutfalli bíla sem eru enn á götunum í fullu fjöri þrátt fyrir svo háan aldur."

 

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.