*

Bílar 21. júlí 2015

„Draumavinnan fyrir mig“

Sigurrós Pétursdóttir, vörustjóri hjá Toyota, er Íslandsmeistari í sparakstri.

Sigurrós Pétursdóttur sér um að yfirfara vöruframboð hjá Toyota og Lexus. „Ég ákveð þá búnað og púsla bílunum saman út frá ákveðinni markaðshagfræði. Ég þarf að koma réttri vöru á réttu verði á markaðinn. Ég byrja að vinna með nýjan bíl tæpum tveimur árum áður en hann kemur. Það er ýmislegt sem þarf að huga að varðandi hvernig bíllinn á að vera búinn. Ég er mikið á ferðinni erlendis út af vinnunni, bæði á fundum og er einnig að reynsluaka bílum m.a. á kappakstursbrautum. Ég er á fullu í bílaferðum meðan maðurinn minn er heima með börnin. Þetta er draumavinna, sérstaklega fyrir konu með mikinn bílaáhuga,“ segir hún.

Reynsluekur í útlöndum 

„Þetta er svolítill karlaheimur þarna úti. Við erum fáar konur í vörustýringunni á alþjóðavísu og karlmenn í miklum meirihluta. Mér finnst þetta samt alveg eins starf fyrir konu eins og karlmann. Ég var einu sinni ólétt á fundum úti og þá var verið að prófa bíla í leiðinni. Karlmennirnir voru hissa þegar ég gerði mig klára í reynsluakstur á braut og leist ekkert á að ég væri að keyra ólétt en mér fannst það ekkert tiltökumál,“ segir hún og brosir.

Meistari í sparakstri

Sigurrós hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari í sparakstri árin 2010 og 2012. ,,Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bílum. Það er gaman að keyra flotta bíla. Mér finnst auð- vitað gaman að gefa í þegar þannig á við en ég kann líka að keyra á sparsömum nótum eins og titlarnir gefa til kynna. Ég hlakka til næstu sparaksturskeppni í haust og ég reyni auðvitað að vinna,“ segir hún brosandi og bætir við: ,,Ég hef alltaf verið meira fyrir jeppa allt frá því að faðir minn kom eitt sinn heim á grænum Ford Bronco jeppa sem var alveg æðislegur.” 

Nánar er spjallað við Sigurrós í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.