*

Bílar 24. maí 2021

Draumurinn að eignast 650 hestafla villidýr

Skúli Steinn Vilbergsson þótti sennilega ekki líklegur til mikill afreka á akademíska sviðinu ungi drengurinn í Keflavíkinni sem aldrei gat hætt að tala og gat ekki setið kyrr.

Róbert Róbertsson

Skúli Steinn Vilbergsson fann þó réttan farveg m.a. í ýmsum íþróttum og var ungur kominn með mikla bíladellu. Hann hefur átt marga flotta bíla í gegnum tíðina enda úr bílabænum Keflavík. Hann fer hér yfir eftirminnilegustu bíla og mótorhjól sem hann hefur átt í gegnum tíðina og sögur sem þeim fylgja. ,,Þau voru ófá samtölin sem ég átti inni á kontor með hinum yndislega Vilhjálmi Ketilssyni heitnum, skólastjóra í Myllubakkaskóla, þar sem ungi drengurinn fékk smá orð í eyra reglulega og ræddu þeir um lífið og tilveruna. Ég er gríðarlega þakklátur því að hafa alist upp á þessum tíma og fengið að vera svona óþekkur. Í dag hefði ég sennilega hlotið ótal greiningar og verið lyfjaður niður. Vinnan sem fór í að beisla orkuna og hjálpa mér að beita henni í réttan farveg hefur verið gríðarleg og stend ég í ómældri þakkarskuld við þá sem komu þar að, sérstaklega eru það foreldrar mínir þau Guðlaug og Vilberg sem ætluðu að eignast fimm börn en hættu þegar þessi prins kom í heiminn þriðji í röðinni. Það var bara ekki til pláss og orka fyrir fleiri eftir að þessi mætti á svæðið," segir hann og brosir.

Í hestaíþróttum og flugi 

Tíminn leið og orkunni lærði Skúli að beina í réttan farveg. Íþróttirnar lágu þar best við og leiðin lá með fjölskyldunni í hestamennskuna sem hann stundaði að kappi. Skúli keppti þar m.a. í hindrunarstökki, Skúli ekur um á BMW 7-línu dísil 4x4 lúxuskerru. Hann er með upphafsstafina sína í númerinu. kappreiðum bæði í stökki og skeiði og vann Íslandsmeistaratitil í gæðingaskeiði. Einnig æfði hann fótbolta, körfubolta, handbolta, karate, júdó, lyftingar og hnefaleika, sem hann var helst frægur fyrir. ,,Á yngri árunum þótti skólinn ekki merkilegt fyrirbæri, lærdómurinn lá vel fyrir mér og það var auðvelt að læra en það var bara nóg að gera á öðrum sviðum. Foreldrar mínir ýttu mér mikið að því að vera stöðugt að læra eitthvað nýtt og bæta á þeim sviðum þar sem áhuginn lá. Flugið hafði átt hug minn frá barnsaldri og draumurinn var að verða flugmaður. Einkaflugmanninn tók ég hjá Flugskóla Íslands samhliða stúdentsprófinu. Atvinnufluginu lauk ég svo nokkrum árum seinna samhliða BSc gráðu í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík og nýverið lauk ég meistaragráðu í forystu og stjórnun við háskólann á Bifröst samhliða 100% vinnu hjá Bílaumboðinu BL þar sem ég starfa sem bílasali nýrra bíla. Ég hef starfað síðastliðin sex ár hjá BL og líkar mjög vel,“ segir hann.

Þetta varð að komast eitthvað áfram

Skúli er úr Keflavík og þar var alltaf gríðarlegur bílaáhugi að hans sögn. ,,Flestir flottustu bílar landsins voru gjarnan í Keflavík og rúntmenningin gríðarleg þannig að maður hefur alltaf verið svona með bensín í blóðinu og dellan byrjaði snemma. Þegar maður loksins varð 17 ára þá hékk ég á hurðarhúninum á lögreglustöðinni í Keflavík á miðnætti að taka á móti ökuskírteininu til að komast á rúntinn. Fyrsti bíllinn var svosem ekkert til að hrópa húrra fyrir eins og gengur og gerist en hann kom manni frá A-B. Á þessum tíma var GTI menningin ríkjandi þannig að það var fjárfest í GTI Golf og stútfyllti ég hann auðvitað af græjum og dóti. Ég hafði mjög gaman af því þegar ég var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja að blasta þessu hressilega þegar ég kom í skólann þannig að rúðurnar í skólanum titruðu og kennarar þurftu gjarnan að hætta að kenna rétt á meðan maður rúllaði framhjá því hávaðinn var það mikill. Gúmmítöffaranum sem maður var á þessum tíma þótti þetta ekkert lítið töff. Manni þótti það bara nokkuð eðlilegt að eyða andvirði bílsins í allskonar breytingar. Þetta varð jú að komast eitthvað áfram, hljóma vel og vera á fallegum felgum,” segir Skúli.

Draumabílinn ZL1 Camaro

Spurður um hver sé draumabíllinn svarar Skúli: ,,Þó að maður sé alveg sannfærður um það að rafmagnsbílar séu framtíðin þá er ég það mikill bensínhaus að ég sé fyrir mér að eiga græju inni í skúr fyrir sunnudagsbíltúrinn. Þar sé ég fyrir mér nýja ZL1 Camaro-inn, bensínlítrinn verður dýr en fullkomlega þess virði í svona afturhjóladrifnu 650 hestafla villidýri sem lætur vel í sér heyra. Þau fá sennilega aldrei að njóta sín öll þessi hestöfl en alltaf gott að eiga fleiri en mann vantar.“ 

Nánar er fjallað um málið í fylgiblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér