*

Bílar 17. febrúar 2018

Dregnir á kviðnum yfir heiðina

Eftirminnilegasta bílferð Ívars Guðmundssonar var þegar hann og bróðir hans reyndu að komast yfir Holtavörðuheiði vorið 1987.

Ívar Guðmundsson, dagskrárstjóri Bylgjunnar, er mikill bílaáhugamaður. Ívar sér um morgnana á Bylgjunni og er þátturinn hans fyrst og fremst skemmtilegur tónlistarþáttur. Hann er persónulegur og byggður upp þannig að fólk hafi gaman af því að hlusta á útvarp. Ívar segir okkur frá uppáhaldsbílnum sínum og eftirminnilegustu bílferðinni ásamt fleiru skemmtilegu.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Sá bíll sem er mér alltaf efst í huga og ég sakna hvað mest að hafa selt er Datsun 280zx Turbo árg. 1983 sem ég seldi frá mér 1998 eftir að hafa átt hann í 12 ár og þar af staðið inni meira og minna í 10 ár. Þetta er sá bíll sem verður alltaf í uppáhaldi hjá mér sem skemmtilegasti bíllinn sem ég hef ekið enda með eindæmum kraftmikill og skemmtilegur akstursbíll.

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Þær eru nokkrar sem koma upp í hugann en sú sem er eftirminnilegust er þegar við bræður reyndum að komast yfir Holtavörðuheiði um páska sennilega vorið 1987. Við vorum að koma að norðan og það var allt kolófært eftir að maður kom upp á Holtavörðuheiði og þótt við værum á Subaru og hann með keðjur þá vorum við fastir í fyrsta eða öðrum skafli. Vorum svo heppnir að fjöldi flutningabíla var að fara í lest yfir heiðina skömmu síðar og hengdu bara Subaru aftan í einn bílinn og svo vorum við bara dregnir á kviðnum yfir heiðina sem tók nokkra klukkutíma að komast yfir með þessum hætti. Einnig man ég eftir hraðferð til Keflavíkur, þar sem lent var á steinvegg í Reykjavík, og ökuleyfissviptingu fyrir of hraðan akstur í Ártúnsbrekku.

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?

,,Ég myndi segja að Rúnar Jónsson rallkappi sé sá besti sem ég hef setið í með en hann tók mig í gegnum eina sérleið á Subaru rallýbílnum sem hann vann marga titla á. Það var svakalegasta bílferð sem ég hef farið í en hann var öryggi uppmálað og mér leið öruggum með honum.

Nánar er rætt við Ívar Guðmundsson í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.