*

Veiði 1. október 2017

Drekar sumarsins

Sjö 108 til 111 sentímetrar laxar veiddust í sumar og þeir tveir stærstu komu á land með nokkurra daga millibili.

Trausti Hafliðason

Laxveiðitímabilinu er að ljúka. Búið að loka langflestum árum landsins og einungis er veitt í nokkrum hafbeitarám þessa dagana, eins og til dæmis Ytri-Rangá. Enn eiga eftir að berast lokatölur úr fjölmörgum ám og því of snemmta leggja dóm á veiðina. Frá árinu 2000 til 2016 hafa að meðaltali veiðst um 51.500 laxar á ári í íslenskum ám.  Allt bendir til þess að veiðin nú sé nokkuð undir meðaltalinu.

Þó veiðin hafi að öllum líkindum verið undir meðaltali þá veiddist töluvert af fallegum stórlöxum í sumar. Sem dæmi þá veiddust nokkrir laxar, sem voru 108 til 111 sentímetrar að lengd. Í töflunni sem fylgir fréttinni má sjá lista yfir sjö slíka dreka en líklega voru þeir bara sex því birst hefur mynd, sem virðist sýna að sami 109 sentímetra laxinn hafi veiðst tvisvar í Hofsá. Fyrst í byrjun ágúst og síðan um miðjan mánuðinn. Ef rétt er þá hljóta veiðimenn að fagna þessu enda til marks um að veiða og sleppa fyrirkomulagið sé að virka.

Stóru laxarnir

Samkvæmt kvarða Veiðimálastofnunar um samband þyngdar og lengdar þá er 108 sentímetra lax um 12,4 kíló en 111 sentímetra langur lax um 13,4 kíló. Ágætt er að taka fram að þetta er viðmið. Laxar af þessari lengd geta bæði verið nokkuð léttari eða töluvert þyngri. Allur gangur er á því. Til þess að áætla þyngdina er nákvæmast að mæla bæði lengd og ummál laxa.

Stærstu laxar sumarsins voru veiddir í Víðidalsá og Laxá í Aðaldal. Árni Pétur Hilmarsson, staðarhaldari á Nessvæðinu í Aðaldal, landaði 111 sentímetra hæng í Skriðuflúð um miðjan mánuðinn. Nokkrum dögum seinna, 19. september, landaði danski veiðimaðurinn Nils Folmer Jörgensen 111 sentímetra hrygnu í Harðeyrarstreng í Víðidalsá. Hængurinn í Aðaldal tók fluguna Erling Special en hrygnan í Víðidalsá tók Radian, sem er fluga eftir Nils Folmer sjálfan. Báðum fiskunum var að sjálfsögðu sleppt.

Ævintýrið í Víðidalsá

„Þetta var ansi magnaður dagur," segir Nils Folmer í samtali við Viðskiptablaðið. „Þetta byrjaði allt á því að ég setti í stórlax í Dalsárósi. Þetta var líklega um 95 sentímetra lax, sem losaði sig rétt áður en ég náði að landa honum. Á ákvað að renna Radian flugunni aftur í gegnum hylinn og þá tók 86 sentímetra hrygna, sem ég landaði. Af því að Dalsárós hefur oft verið góður við mig ákvað ég að halda aðeins áfram. Það skipti engum togum, fljótlega tók enn einn stórlaxinn fluguna og í þetta skiptið var það 106 sentímetra hængur. Fiskurinn var  vel haldinn. Jóhann Rafnfjörð var með mér þennan dag og við mældum ummálið og var það  56 sentímetrar um kviðinn."

106 sentímetra laxinn var sá stærsti sem veiðst hafði í Víðidalsá í sumar en það átti eftir að breytast. Eftir ævintýrið í Dalsárósi héldu þér félagar, Nils Folmer og Jóhann, í Harðeyrarstreng.

„Þar setti ég í svakalegan lax sem líka tók Radian," segir Nils Folmer. „Baráttan tók svona 30 til 40 mínútur og þegar ég landaði henni mældum við Jóhann fiskinn þrisvar. Þetta var 111 sentímetra löng hrygna og ummálið var 57 sentímetrar. Ég held að þetta hljóti að vera ein stærsta hrygna sem veiðst hafi á Íslandi. Laxinn var það stór að ég treysti mér ekki til að halda á honum, þess vegna tók Jói mynd af mér sitjandi með hrygnuna."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.