*

Ferðalög 6. desember 2017

Dreymir þig um að ganga Jakobsveginn?

Jakobsvegur eða Vegur heilags Jakobs er ein þekktasta pílagrímaleið í Evrópu.

Kolbrún P. Helgadóttir

Á spænsku heitir hann El Camino de Santiago. Jakobsvegurinn endar í dómkirkjunni í Santiago de Compostela í héraðinu Galisíu á Spáni en hefst þar sem pílagrímurinn leggur af stað. Ferðaskrifstofan Mundo hefur nú sett saman ferð sem farin verður í ágúst árið 2018 en fullt var út úr dyrum í Dómkirkjunni á dögunum þar sem ferðin var kynnt ítarlega.

Ferð fyrir forvitna

Um er að ræða tveggja vikna rútuferð frá St Jean Pied de Port til Santiago de Compostela, samtals 790 km, þar sem skiptast á hólar og hæðir, skógar og sléttur, landbúnaðarhéruð, borgir og bæir allt það besta sem norðurhéruð Spánar hafa upp á að bjóða. Það er því óhætt að segja að ferðin standi undir einkunnarorðum Mundo: menntun, skemmtun, menning og þjálfun. „Hægt er að velja að ganga 5 -15 km á dag, allt eftir getu og vilja hvers og eins, eða sitja í rútunni. Ferðin er hugsuð fyrir þá sem hafa litla göngugetu en eru mun verr haldnir af forvitni og löngun til að upplifa þessa stórkostlegu ferð,“ segir á heimasíðu ferðaskrifstofunnar um ferðina. Gistingin er allar tegundir af herbergjum en leitast er við að hafa hana fjölbreytta og eins þægilega og hægt er hverju sinni. Ávallt er gist í tveggja manna herbergjum og í það minnsta eina nótt á verulega fínu hóteli. Það er alltaf lín á rúmum, handklæði og sturta. Fararstjóri ferðarinnar er Brynjar Karlsson.

Jakobsvegurinn á Heimsminjaskrá

Jakobsvegurinn hefur verið farbraut manna í meira en þúsund ár og var ein megin pílagrímaleið kristinna manna á mið- öldum. Ferð um Jakobsveginn var ein af þremur slíkum sem veittu syndaaflausn samkvæmt kaþólsku kirkjunni. Hinar tvær voru pílagrímaganga til Rómar eftir svo nefndri Via Francigena leið og svo pílagrímaferð til Jerúsalem. Samkvæmt helgisögn, sem almennt er talin eiga upphaf á sjöundu öld, var Jakob postula ætlað trúboð á Íberíuskaganum. Fyrir þessari helgisögn eru hins vegar engar heimildir, hvorki í Biblíunni né í öðrum ritum. Heilagur Jakob, sem einnig er nefndur hinn mikli, var eldri bróðir Jóhannesar guðspjallamanns samkvæmt Nýja testamentinu. Á miðöldum var leiðin afar fjölfarin en svarti dauði, siðaskipti mótmælenda og ekki síst pólitísk umbrot á 16. öld urðu til þessa að mjög fækkaði pílagrímum. Um 1980 komu einungis fáeinir pílagrímar árlega til Santiago. En upp frá því hefur þeim fjölgað stöðugt og á síðustu árum fara milli 50.000 og 100.000 pílagrímar árlega þessa leið. Árið 1993 var Jakobsvegurinn á Spáni settur á Heimsminjaskrá UNESCO og franski hlutinn árið 1998.

Fyrsti menningarvegur Evrópu

Síðustu áratugina hafa tugir þúsunda kristinna pílagríma og annarra ferðamanna lagt upp í för til Santiago de Compostela. Árið 1982 fór páfinn Jóhannes Páll II í pílagrímsferð til Santiago og skoraði þá á Evrópumenn að endurreisa hefð pílagríma sem leið til að finna menningarlegar rætur sínar. Var það á sinn hátt til að endurskapa Jakobsveg nútímans. Evrópuráðið samþykkti 1987 að útnefna Jakobsveginn sem fyrsta menningarveg Evr- ópu. Það ár voru 3.000 pílagrímar skráðir við dómkirkjuna í Santiago, árið 2003 voru þeir 74.000 og 2004, sem var heilagt Compostela-ár, komu 179.932. Nokkrir hefja förina bókstaflega á þröskuldi heimilis síns en flestir hefja pílagrímaferðina á einhverjum af þeim stöðum sem kaþ- ólska kirkjan og ferðamálayfirvöld í Frakklandi og á Spáni í sameiningu hafa valið sem upphafsstaði Jakobsvegar nútímans. Flestir fara gangandi, nokkrir hjóla og fáeinir fara ferða sinna á þann hátt sem miðalda pílagrímar gerðu, það er með hest eða asna. Fyrir utan þá sem fara í trúarlegum tilgangi eru fjölmargir sem hafa aðrar ástæður, menningarlegar jafnt og ferðaþrá.

Erfiðið þess virði

Á leiðarenda segja margir að sýnin yfir dómkirkjuna í Santiago geri allt erfiðið þess virði og sú kirkja er án alls efa ein sú allra fallegasta í veröldinni. Kirkjuyfirvöld reyna reyndar einnig að verðlauna alla þá sem ferðalagið leggja á sig og veita þeim er standast reglur þar að lútandi viðurkenningu á leiðarenda. Þarf göngugarpurinn að fá staðfestingu á því á hverjum áfangastað á leiðinni til að vera gjaldgengur en kirkjan hefur reyndar gefið nokkurn afslátt á þessu síðustu árin. Nægir nú að labba síðustu hundrað kílómetrana eða hjóla síðustu tvö hundruð kíló- metrana til að fá stimpil heilagrar kirkju í Compostela.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.