*

Menning & listir 27. júlí 2021

Víkingaskáli til sölu

Skálinn er í Hörgársveit í Eyjafirði og fæst fyrir 25 milljónir króna en hann var upphaflega hugsaður sem ferðamannastaður.

Snær Snæbjörnsson

Inni á fasteignavef Vísis má nú finna til sölu glæsilegan víkingaskála í Hörgársveit. Telur Viðskiptablaðið því gráupplagt að pakka vistum, söðla Skjóna og halda til Eyjafjarðar á vit ævintýranna. 

Skálinn er til sölu fyrir 25 milljónir króna eða því sem nemur um 30.000 lítrum af mjöð. Húsið er skráð 216 fermetrar en heildarstærð þess er á bilinu 250 til 260 fermetrar. Í auglýsingunni segir að skálinn sé byggður að fornum sið „með burðargrind úr timbri og veggi úr torfi og grjóti og torfi á þaki ofan á timburklæðningu". 

Húsið er fjórskipt en stærstu rými þess eru samliggjandi stofa og skáli, úr skálanum liggur baðhús til vesturs og úr stofunni er eldhús til vesturs. Þó svo að húsið sé byggt að fornum sið þýðir það alls ekki að öllum munaði 21. aldarinnar sé sleppt.

Í bað- og eldhúsinu er steypt og upphitað gólf svo manni verði ekki kalt á tánum þegar maður laumast að sækja sér mysu um miðja nótt.

Skálinn og stofan eru hins vegar með moldargólfi þannig að umræddar tær gætu hins vegar orðið moldugar en alvöru víkingar kveinka sér nú varla yfir þess háttar smámunum. Þá er einnig rafmagn á staðnum en ekkert vatn eða rotþró enn. 

Þá er lítið mál að bjóða sveitungum og velunnurum upp á göróttar veigar og lærissneið þar sem gert er ráð fyrir borðum og bekkjum fyrir allt að 50 manns. Ekki skal örvænta þó einhver gesturinn hafi fengið sér fullmikið í tánna því í skálanum er gert ráð fyrir myndarlegu svefnplássi. 

Fallegt útsýni er yfir Akureyri og Eyjafjörð þar sem húsið stendur tiltölulega hátt. Vegslóðinn að húsinu er illfær en ekkert sem hann Skjóni, eða jeppi, ræður ekki við.

Framkvæmdir við torfhúsið hófust 1135 árum eftir landnám (2009) en voru aldrei fullkláraðar. Sé fólk ekki alfarið tilbúið til að segja skilið við nútímamunað var upphafleg hugmynd að byggja upp ferðamannastað með áherslu á víkingaöldina þar sem hægt væri að bjóða upp á veitingar og veisluhöld. Skálinn er skráður sem fokheldur eða á byggingarstigi 4. 

Auglýsinguna í heild sinni má nálgast hér