*

Tölvur & tækni 15. desember 2015

Drón skyldug til skráningar

Bandarísk flugumferðaryfirvöld hafa fyrirskipað skráningu allra dróna og flygilda í umferð í sérstakan gagnagrunn.

Bandaríska flugeftirlitsstofnunin kynnti í gær reglugerðir varðandi drón og sams konar flygildi. Þá ber öllum eigendum slíkra tækja og tóla að skrá eignarhald sitt í gagnabanka frá og með 21. desember, eða sæta sektum ella.

Nú þegar eru fleiri en hundrað þúsund drónar í notkun í Bandaríkjunum, en hver og einn þeirra verður skyldur til skráningar við nafn eiganda ásamt upplýsingum um heimilsfang og netfang.

Eigendur sem þegar eiga drón þurfa að skrá flugtækin sín fyrir 16. febrúar 2016 en nýbakaðir eigendur þurfa að skrá sig fyrir jómfrúarflug sitt.

Þá mun hver skráning koma til með að kosta einhverjar 400 krónur og gilda í þrjú ár, óháð hversu mörg drón hver og einn eigandi á.

Sérstakt skráningarnúmer fylgir hverjum drón svo hægt verði að rekja og hafa upp á eigandanum verði drónanum flogið of hátt eða þannig að það trufli loftumferð. Er þetta gert í tilraun til að reyna að tryggja öryggi í lofthelgi Bandaríkjanna. Frá þessu er sagt á vefsíðu Allt um flug.is

Stikkorð: Bandaríkin  • Skráning  • Bandaríkin  • Ríkið  • Drón