*

Menning & listir 21. nóvember 2016

Drungi á Vestfjörðum

Ragnar Jónasson vinnur sem lögfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu Gamma á daginn, en á kvöldin skrifar hann glæpasögur.

Höskuldur Marselíusarson

Ragnar Jónasson vinnur sem lögfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu Gamma á daginn, en á kvöldin skrifar hann glæpasögur. Í síðustu viku var nýjasta bók hans, Drungi, í öðru sæti á metsölulista Eymundsson, næst á eftir bók Arnaldar Indriðasonar.

„Bókin er sjálfstætt framhald á bók sem kom út í fyrra og hét Dimma, þó þessi bók gerist áður. Sama aðalpersónan er í báðum bókunum en þessi sería fer aftur í tímann, þannig að nú erum við að fylgjast með lögreglukonunni Huldu, annars vegar árið 1987 og hins vegar árið 1997, þar sem hún er þá fertug og fimmtug. Í síðustu bók var hún 64 ára þannig að hún yngist milli bóka,“ segir Ragnar.

„Sögusviðið eru tveir staðir, annars vegar dalur sem heitir Heydalur, í Ísafjarðardjúpi þó hann sé ekki nefndur á nafn í bókinni, en þar ímynda ég mér að þetta gerist. Árið er 1987 og þá fer ungt par í sumarbú­ staðaferð þangað, að hausti til í myrkri en stúlkan finnst látin nokkru síðar í þessum bústað, og við fáum ekkert að vita strax hvað gerðist.“

Ragnar var á ferð um Vestfirði í fyrrasumar og kom fyrir tilviljun í Heydalinn sem honum fannst mjög fallegur staður. „Um haustið þegar ég byrjaði að skrifa bókina fannst mér sjónarsviðið henta vel fyrir upphafsatriðið í sögunni,“ segir Ragnar sem segir hugmyndirnar að bókunum koma héðan og þaðan.

„Í þessari bók var voru það bara einhver mismæli, dóttir mín var að rugla saman tveimur líkum nöfnum. Ég vil ekki segja of mikið en þetta saklausa komment kveikti bara hugmyndina. Ég er með tvær, þrjár bækur í kollinum núna, en auðvitað eru þær mislangt komnar í huganum en þegar maður sér eitthvað áhugavert eða fær einhverja hugmynd tekur maður eftir því og svo finnur maður hvar hún gæti passað.“

Hitt sögusvið bókarinnar er eyjan Elliðaey í Vestmannaeyjum þangað sem hópur ungmenna sem þekkti hina látnu stúlku fer tíu árum síðar til að minnast hennar, þar á meðal sá sem var með stúlkunni í bú­ staðaferðinni örlagaríku.

„Vinur minn er í veiðifélagi þarna úti í Elliðaey og talar mikið um eyjuna sína. Af frásögnum hans hugsaði ég að þetta væri fullkominn stað­ ur, erfitt að komast þangað, dramatískt og fallegt landslag og einangrun. Ég hugsaði að þetta þyrfti að vera í bók, en svo fór ég í sumar og heimsótti eyjuna, því ég vil vera búinn að skoða staðina áður en ég skrifa bækurnar. Þetta var alveg ógleymanleg ferð og landslagið er mjög fallegt og hrikalegt þarna,“ segir Ragnar.

„Þau fara þarna ein og eru þar yfir helgi, fjögur saman, nánast sambandslaus, en það er einhver talstöð þarna, en enginn bátur og ekki neitt. Lýkur ferð­ inni með því að einn úr hópnum deyr og þá hefst málið, menn fara að púsla saman atburðum fortíðarinnar og þeim draugum sem hafa hvílt yfir fólkinu og því sem gerist í eyjunni.“

Þýddi bækur Agötu Christie í mörg ár

Ragnar segist alltaf vera búinn að ákveða fléttuna áður en hann byrjar að skrifa, en í mörg ár þýddi hann glæpasögur Agöthu Christie yfir á íslensku og framfleytti sér þannig í gegnum nám.

„Ég er mjög mikill áhugamað­ur um svona gamaldags klass­ískar glæpasögur, þar sem fléttan er dálítið í fyrirrúmi. Þar kom virðingin fyrir gátunni, hún þarf að ganga upp og hún þarf helst að vera óvænt, þannig að þegar þú ert kominn að enda sögunnar sérðu eitthvað í öðru ljósi en þú hafðir séð það í upphafi. Ég myndi aldrei byrja á bók án þess að vita nákvæmlega hvernig hún ætti að enda og hvernig ég hyggst koma fólki á óvart í lokin,“ segir Ragnar.

„Þetta er harmsaga en hugmyndin kviknaði þegar ég sá einhverja frétt eða einhvern þátt í bresku sjónvarpi þar sem fjölskyldufað­ ir var handtekinn á heimili sínu. Ég hugsaði að þetta væru svolítið hrottalegar aðstæður, að vera í rólegheitum í friðhelgi heimilisins, og svo allt í einu kemur einhver utanaðkomandi og sakar þig um hræðilegan glæp og vera svo dreginn út á náttfötunum fyrir framan allt fólkið í blokkinni.“

Nánar er fjallað um máið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Vestfirðir  • Ragnar Jónasson  • bækur  • Drungi