*

Sport & peningar 15. febrúar 2015

Durgar í NFL-deildinni

Nú þegar hafa fjórir leikmenn NFL-deildarinnar lent í vandræðum vegna hegðunar utan vallar.

Bjarni Ólafsson

Bandaríska fótboltadeildin NFL verður seint talin í hópi þeirra þar sem prúðmennska og kurteisi er í mestum metum höfð. Allt frá upphafi hafa „skrautlegir karakterar“ einkennt deildina, en það er ekki fyrr en á síðustu árum sem deildin, sem vill höfða meira til kvenna, hefur tekið sjálf á afbrotum leikmanna utan vallar.

Hér er líklega óþarfi að nefna storminn sem varð til í kringum hlauparann Ray Rice, sem upphaflega fékk tveggja leikja bann fyrir að slá konu sína svo þungu höggi að hún missti meðvitund. Það var ekki fyrr en myndband af árásinni var gert opinbert að hann fékk „ótímabundið bann“.

Deildinni ætlar hins vegar að reynast erfitt að hrista þetta óþokkaorðspor af sér. Aðeins eru liðnar tæpar tvær vikur frá því að tímabilinu lauk formlega með SuperBowl- leiknum og nú þegar hafa fjórar nýjar sögur sprottið upp þar sem leikmenn eða fyrrverandi leikmenn leika aðalhlutverk.

Líklega er best að byrja á Warren Sapp, fyrrverandi varnarmanni hjá Tampa Bay Buccaneers og sjónvarpsmanni hjá NFL Network. Hann var handtekinn í Phoenix nóttina eftir Super Bowl fyrir að hafa greitt fyrir þjónustu tveggja vændiskvenna. Deilur um greiðslu til kvennanna leiddu til átaka og hringdu þær á lögreglu sem handtók Sapp. Hann hefur nú verið rekinn frá sjónvarpsstöðinni. Fall Sapps er töluvert, því hann var á sínum tíma talinn einn besti varnarmaður deildarinnar og var vinsæll sjónvarpsmaður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.