*

Tölvur & tækni 14. maí 2013

Dust 514 kominn út

CCP reiknar með því að áskrifendum að leikjum fyrirtækisins muni fjölga frekar með útgáfu Dust 514.

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP gefur í dag út nýja skotleikinn Dust 514. Leikurinn er fyrir leikjatölvurnar PlayStation 3 og gerist í sama sýndarheimi og fjölspilunareikurinn Eve Online. Tíu ár eru í þessum mánuði síðan Eve Online kom út.

Fram kemur í tilkynningu frá CCP að áskrifendur CCP séu rúmlega hálf milljón í dag og sé ljóst að með tilkomu DUST 514 stækki EVE heimurinn umtalsvert. Í næsta mánuði, nánar tiltekið 4. júní, kemur svo út næsta viðbót við EVE Online, Odyssey, og síðar í ár er ráðgert að fyrsta stóra viðbótin við DUST 514 líti dagsins ljós.

Dust 514 hefur verið aðgengilegur netspilurum í prufuútgáfu um nokkurra mánaða skeið. Í tilkynningu CCP segir að mikil og góð þáttaka í prufunum leiksins hafi nýst CCP vel við þróun leiksins þar sem tekið hefur verið mið af viðbrögðum spilara á ýmsum sviðum. 

Dust 514 verður fáanlegur án endurgjalds gegnum PlayStation Network dreifikerfi SONY – og er þar með fyrsti leikur sinnar tegundar til að styðjast við nýtt viðskiptamódel, svokallað „Free to Play“. Leikurinn sjálfur er þá fáanlegur án greiðslu, en tekna er aflað með sölu á vopnum, farartækjum og ýmsum öðrum varningi í leiknum sjálfum. Spilarar DUST 514 geta þannig aukið við upplifun sína við spilun leiksins með margvíslegum hætti. 

Stikkorð: CCP  • Dust 514  • Eve Online