*

Hitt og þetta 27. júlí 2006

Dýr myndi Skorradalur allur

Í Viðskiptablaðinu var greint frá breytingum á eignarhaldi lands í Skorradal en í sumum tilvikum munu menn vera farnir að krefjast allt að 10 milljóna króna fyrir hektarann. Tíð eigendaskipti á landi hafa haft þar áhrif. Jörðin Dagverðarnes er dæmigerð fyrir það en Bjarni Ásgeir Jónsson, fyrrverandi forstjóri og aðaleigandi kjúklingabúsins Reykjagarðs, eignaðist jörðina fyrir 90 milljónir króna fyrir nokkrum misserum. Jörðin ávaxtaðist vel í eigu hans og keypti Arngrímur Hermannsson, sem í eina tíð rak ferðaþjónustufyrirtækið Addís, og kona hans, Anna Hallgrímsdóttir, jörðina fyrir skömmu á 320 milljónir króna að því er heimildir segja. Í millitíðinni hafði Bjarni Ásgeir selt nokkra parta út úr jörðinni og ávaxtað vel. Sama má segja um jörðina Hvamm sem Kristján Benediktsson keypti og seldi Jóhanni Sigurðssyni, kenndum við Hreinkaup. Jóhann keypti upp ýmsa parta meðal annars þriðjung jarðarinnar af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og borgaði fyrir það 24 milljónir króna. Í Skorradalnum segja menn að sá partur hafi ávaxtast betur en bréf í deCODE því Jóhann seldi skikann á 120 milljónir ári seinna. Þá munu eigendur Vatnsenda og Litlu-Drageyrar hafa fengið óformleg tilboð um að selja jarðir sínar og í seinna tilfellinu jafnvel rætt um milljarðatilboð. Því segja gárungarnir að dýr myndi Skorradalur allur.