*

Tíska og hönnun 12. febrúar 2014

Dýrasta fasteignarsala vikunnar á Manhattan

Dýrasta húsið sem seldist á Manhattan í vikunni fór á rúmlega 5,8 milljarða króna.

Sala vikunnar á Manhattan var sögufrægt klassískt „Town House” austan megin við Central Park á 70. stræti á milli Park Avenue og Lexington. Húsið seldist á 51 milljón dali eða rúmlega 5,8 milljarða króna.

Húsið, sem er í neo-georgískum stíl, var í eigu Reed Krakoff sem var eitt sinn yfir töskumerkinu Coach sem er metið á 5 milljarða dali. Húsið er á sjö hæðum og er tæpir 1700 fermetrar.

Það var byggt árið 1922 fyrir I. Townsend Burden. Þegar Krakoff keypti húsið fyrir 17 milljónir dala árið 2005 hafði það drabbast niður og verið skipt niður í minni íbúðir. Krakoff og kona hans, Delphine sem er innanhússhönnuður, hófust handa við að gera húsið upp. Í miðju verkinu gjöreyðilagðist húsið síðan í eldsvoða.

Þrátt fyrir eldsvoðann var haldið áfram að gera húsið upp. Í viðtali við fjölmiðla sagði Delphine Krakoff að stiginn í húsinu ætti að minna á stigann í Guggenheim safninu. Þar kom einnig fram að veggirnir á baðherberginu væru úr gylltu snákaskinni.

Nánari upplýsingar um þessa merkilegu eign má finna hér á vef The New York Times.

Stikkorð: Manhattan  • Upper East Side