*

Tíska og hönnun 12. nóvember 2019

Dýrasta úr sögunnar fór á tæpa 4 milljarða

Patek Philippe armbandsúr sögunnar var selt á uppboði um síðustu helgi á 31 milljón dollara.

Sérsmíðað armbandsúr frá svissneska fjölskyldufyrirtækinu Patek Philippe var slegið á 31 milljón dollara á uppboði í Sviss um síðustu helgi, að því er kemur fram í frétt á vef CNBC. Úrið er nú það dýrasta sem sögur fara af en það var nærri tvöfalt dýrari en forveri þess, Rolex Daytona úrið, sem eitt sinn var í eigu Paul Newman, sem seldist á 17,7 milljónir dollara árið 2017. 

Úrið var selt á Christie´s uppboði í Genf sem haldið var til styrktar rannsóknum á vöðvarýrunarsjúkdóminum Duchenne. Talsmaður Christie´s sagði það hafa ýtt verðinu upp að uppboðið var haldið í þágu góðs málefnis. 

Heiti úrsins er Patek Philippe Grandmaster Chime reference 6300A-010. Það þykir mikil völundarsmíð og er það eina sinnar tegundar sem smíðað er úr ryðfríu stáli (e. steinless steel). 

Stikkorð: Uppboð