
Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er Bugatti Royale, með framleiðsluheitið Type 41, dýrasti bíll sem seldur hefur verið.
Bíllinn var framleiddur í Molsheim í Frakklandi á árunum 1927-1933. Aðeins sex eintök voru framleidd.
Bíllinn var ætlaður kóngum og drottingum og pantaði Alfonso Spánarkonungur fyrsta bíllinn. Hann var þó aldrei afhentur og aðeins þrír bílanna seldust á framleiðsluárunum, enginn til þjóðhöfðingja. Kreppan mikla sem skall á 1929 hafði mikil áhrif á sölu og framleiðslu bílsins sem var hætt 1933. Allir sex bílarnir eru enn til en frumgerðin eyðilagðist í prófunum árið 1931.
Telja verður að annar bíllinn sem var framleiddur og nefnist Coupé de ville Binder sé dýrasti bíll veraldar. Hann var seldir árið 1932 til Armand Esders, tískuhönnuðar í París.
Bíllinn var seldur árið 1987 á uppboði í Bandaríkjunum fyrir 9,8 milljónir dala. Samsvarar það um 20 milljónum dala á verðlagi dagsins í dag.
Talið er að þýski bílaframleiðandinn Volkswagen, núverandi eigandi Bugatti verksmiðjanna, hafi keypt bílinn árið 1999 fyrir um 20 milljónir dala. Væru það um 28 milljónir dala á núverandi verðlagi eða um 3,6 milljarðar króna.
Erfitt er að fullyrða að billinn sé verðmætasti bíll í heimi. Hvers virði ætli til dæmis Benz Patent Motorwagen frá 1886 sé, sem er talinn vera fyrsti bíllinn? Hann er í eigu Benz safnsins í Stuttgart og verður eflaust aldrei seldur.