*

Bílar 12. desember 2011

Dýrasti bíll í heimi til sölu við Fiskislóð

Þeir sem ekki vita aura sinna tal kaupa gjarnan einn Bugatti Veyron í þeirri von að verðið hækki þegar framleiðslunni verður hætt.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Þetta er leikfang fyrir þá sem vita ekki aura sinna tal en vaða í seðlum og eru haldnir ástríðu fyrir flottum og hraðskreiðum bílum,“ segir Viktor Urbancic hjá bílasölunni Sparibíl um Bugatti Veyron.

Fram kom í netútgáfu Viðskiptablaðsins í gær að Bugatti Veyron kostar litlar 2,6 milljónir dala, um 310 milljónir króna, í Bandaríkjunum og er að mati Forbes tímaritsins dýrasti fjöldaframleiddi bíll næsta árs. Hingað kominn myndi bíllinn kosta á milli 500-600 milljónir.

Bíl sömu gerðar má einmitt finna á söluskrá hjá Sparibíl við Fiskislóð. Sá auglýsti er módel 2006, grár að lit og tveggja dyra fyrir tvo. Vélin er 16 strokka, 1001 hestöfl og bíllinn rétt tæp tvö tonn að þyngd. Hann er beinskiptur með sjö gírum og sídrifi. Bíllinn kemst upp í rétt rúma 400 km hraða, sem er litlu minna en sá nýi, og kostar rúmar 420 milljónir króna.

Viktor bendir á að þessi bíll sé reyndar seldur. Sparibílar hafi hins vegar samband við birgi í Bandaríkjunum sem lumar á 2007-módelinu sem sé nokkurn veginn eins.

 

Fokdýrir en hraðskreiðir safngripir

„Við höfum fengið bæði hól og last fyrir að vera með þennan bíl á heimasíðunni okkar. En við ákváðum á sínum tíma að hafa hann þar svo fólk geti séð hvað það gæti eytt peningunum sínum í,“ segir Viktor.

„Þetta eru safngripir og yfirleitt lítið sem ekkert keyrðir. Stundum kaupa fjárfestar þessa bíla í þeirri von að þeir hækki í verði," segir Viktor og bendir á að Bugatti Veyron-bílarnir séu svo dýrir í framleiðslu að Volkswagen, sem framleiðir þá, tapi um einni milljón evra á hverjum bíl. „Ef Volkswagen gefst upp og hættir að framleiða bílana þá hækkar verð þeirra.“

Bugatti-bílarnir voru þekktir í röðum auðugra einstaklinga í uppsveiflunni og munu einhverjir Íslendingar hafa geymt slíka græju í útlöndum. Fyrir hrun seldur á bilinu 80 til 70 bílar á heimsvísu á ári. Það sem af er árs hafa hins vegar aðeins 9 eintök selst.

Til gamans má geta að dekkin undir Bugatti-bílum eru frá Michelin, sem eru sérstaklega hönnuð fyrir þann hraða sem Buggatti Veyron kemst á. Settið af dekkjunum kostar 25 þúsund dollara. Það gerir þrjár milljónir króna. Hingað komin yrðu þau talsvert dýrari. Dekkin eru sett á felgurnar með þeim hætti að aðeins er hægt að taka þau af hjá Michelin í Frakklandi. Þjónustan kostar 70 þúsund dollara, í kringum 8,4 milljónir íslenskra króna.

Stikkorð: Bugatti Veyron