*

Bílar 19. mars 2017

Dýrasti jeppi í heimi

Óvenjulegur gripur var frumsýndur í Genf — Mercedes-Maybach G650 Landaulet nefnist hann.

Með því að skella Maybach aftan við Mercedes þá er um að ræða Benz stútfullan af lúxus. Til að mynda eru aftursætin í bílnum þau sömu og Mercedes-Maybach S bílnum. Landlaulet merkir svo að þak er yfir framsætum en með blæju yfir aftursæti og slíkir bílar eru að jafnaði lengri.

Hann er búinn 6 lítra 621 hestafla V12 bensínvél. Aðeins verða framleidd 99 eintök af þessum ótrúlega jeppa. Verðið hefur ekki verið gefið upp en búast má við að það verði 500 þúsund dalir í Bandaríkjunum sem myndi þýða að þetta væri dýrasti jeppi í heimi. Kominn til Íslands myndi hann þá kosta um 100 milljónir króna, að því gefnu að Már Guðmundsson seðlabankastjóri leyfi krónunni ekki veikjast mikið.

Þessi jeppi markar einnig tímamót. Mercedes-Benz er að þróa breytta útgáfu af G jeppanum sem mun koma á markað árið 2019, fjörutíu árum eftir að hann kom fyrst á markað. Sá nýi verður allt að 10 cm breiðari, með nýrri fjöðrun og notast verður við ál til að létta hann verulega.

Fyrir hverja eru Landaulet?

Þjóðhöfðingjar, ofurríkir og frægir eru þeir sem líklegastir hafa verið í gegnum tíðinna að aka um Landaulet bílum.
Mercedes-Benz er líklega sá bílaframleiðandi sem framleitt hefur flesta slíka bíla. Karl Benz byggði fyrsta bílinn árið 1907,  19 árum áður en hann sameinaðist Gottlieb Daimler og Mercedes kom til sögunnar. Fram að Seinni heimsstyrjöld smíðaði Mercedes-Benz tæplega 2.000 bíla í Landaulet útgáfu.

Sex árum eftir stríðið, árið 1951, kom Mercedes-Benz 300 á markað. Lúxusútgáfan af honum nefndist 300d eða Adenauer.  Það var í höfuðið á Konrad Adenauer, kanslara Sambandslýðveldisins Þýskalands 1949-1963. Adenauer kanslari ók um götur Vestur-Berlínar sumarið 1963.

Við Adenauer tók Mercedes-Benz 600, sem var framleiddur frá 1963–1981. Til marks um hversu sjaldgæf Landaulet útgáfan er, þá voru aðeins smíðaðir 59 í þeirri útgáfu á þessum 28 árum. Reyndar vegar voru fleiri Mercedes-Benz bílar framleiddir í þessari útgáfu á tímabilinu.

Páfinn í Róm

Leiðtogi kaþólsku kirkjunnar í heiminum, páfinn í Róm, hefur notast við bíla frá ótal bílaframleiðendum í gegnum tíðina. Samband Vatíkansins og Mercedes-Benz hefur hins vegar verið ákaflega sterkt og er embættisbifreið páfans búinn að vera af þeirri gerð frá árinu 1930.

Frá 1960-1980 voru bílar páfans í eingöngu Landaulet útgáfu. Þá kom G jeppinn í Páfagarð. Hann var búinn skothelldu búri en áfram var þó notast við Landaulet útgáfur af S bílnum.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Mercedes-Benz  • bílar  • Mercedes-Maybach  • jeppar  • Landaulet